Innlent

Ákærðir fyrir stórfelldan bókaþjófnað

Ari Gísli Bragason hefur verið ákærður fyrir meintan þjófnað.
Ari Gísli Bragason hefur verið ákærður fyrir meintan þjófnað.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært Ara Gísla Bragason og Böðvar Yngva Jakobsson fyrir þjófnað á tugum bóka úr dánarbúi Böðvars Kvarans á seinni hluta ársins 2006 og fyrri hluta ársins 2007.

Það var Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og sonur Böðvars, sem kærði málið til lögreglunnar sumarið 2007.

Lögreglan birti lista yfir þær bækur sem var saknað sama ár en um var að ræða fjöldann allan af fágætum bókum. Þar á meðal útgáfu af Snorra-Eddu og Völuspá frá 17. öld og Konungasögur Snorra Sturlusonar frá árinu 1633. Verðmæti safnsins hleypur á milljónum króna.

Málið vakti talsverða athygli í janúar 2008 en þá sagði Hjörleifur í viðtali við dagblaðið 24 stundir, að Ari, sem er sonur Braga Kristjónssonar fornbókasala, væri samsekur í málinu. Ari kom þá í viðtal á Stöð 2 þar sem hann hótaði að fara í meiðyrðamál vegna ásakanna Hjörleifs.

Ari sagðist hafi keypt bækur úr safninu í góðri trú af einstaklingi sem hafi boðið þær til sölu. Bókunum hafi hins vegar verið skilað þegar upp komst að um þýfi væri að ræða. Hann sagði ásakanir Hjörleifs vera úr lausu lofti gripnar.

Það var svo í morgun sem málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur. Böðvar vildi ekki tjá sig um málið en staðfesti að þeir hefðu verið ákærðir vegna þjófnaðar á bókunum. Ekki náðist í Ara vegna málsins. Þá fékkst ekki uppgefið hvaða afstöðu þeir tóku til sakarefnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×