Innlent

Stakk mann í nauðavörn - Hæstiréttur klofnaði

Hæstiréttur.
Hæstiréttur.

Hæstiréttur mildaði í dag dóm yfir karlmanni sem var dæmdur fyrir að stinga mann í síðuna með hníf í nóvember 2008. Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að hafa haft fíkniefni undir höndum.

Maðurinn var upprunalega dæmdur í tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundið til sjö mánaða, fyrir brotið. Hæstiréttur mildaði dóminn niður í þrjá mánuði og er refsingin skilorðsbundin til tveggja ára.

Maðurinn sagði fyrir dómi að hann hefði verið að verjast árás fjögurra manna sem réðust á hann og misþyrmdu. Maðurinn sagðist að lokum hafa stungið einn þeirra í síðuna í sjálfsvörn.

Hæstiréttur fellst á þetta að hluta til en telur ekki unnt að fallast á að brotið yrði metið refsilaust.

Þessu er hinsvegar Ólafur Börkur Þorvaldsson, hæstaréttardómari ekki sammála, og skilaði hann því séráliti.

Hann segir í áliti sínu að maðurinn hefði notað hnífinn í algjörri nauðavörn á meðan fjórir menn gengu í skrokk á honum. Því ætti að sýkna hann af brotinu.

Ólafur Börkur gerir þó ekki athugasemdir við fíkniefnadóminn sem maðurinn hlaut en hann var með MDMA og Alsælu í fórum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×