Skoðun

Strætófarþegar nota ekki bílastæði

Farþegum fjölgar hjá Strætó, sem ekki getur sinnt þessari auknu eftirspurn vegna samdráttar. Sorglegt að geta ekki boðið upp á meiri þjónustu í samræmi við kærkomna eftirspurn.

Strætófarþegi sem mætir til vinnu sinnar eða í skóla þarf ekkert bílastæði, eins og augljóst má vera. Hann er þess vegna ódýrari fyrir þá stofnun eða fyrirtæki sem hann vinnur hjá en sá sem notar bílastæði. Er strætó­farþeginn að hagnast á því? Nei, því miður, nema í algerum undan­tekningartilfellum.

Ég sé ekkert réttlæti í því að bílandi starfsmaður fái að leggja frítt við sinn vinnustað á kostnað vinnuveitandans, en starfsfélagi hans sem kemur með strætó njóti þess ekki að spara vinnuveitandanum bílastæði fyrir sig.

Bílastæði eru hluti af rekstrarkostnaði fyrirtækja og stofnana, á stórum vinnustöðum getur hann verið umtalsverður.

Ég tel því eðlilegt og sanngjarnt að fyrirtæki og stofnanir innheimti sanngjarnt gjald fyrir notkun á bílastæðum sínum. Gjald sem gæti verið eins konar þjónustugjald til Strætó fyrir að koma sínum starfsmönnum til vinnu. Þannig gætu þau tekið þátt í kostnaði við rekstur Strætó og jafnvel stuðlað að bættri þjónustu, samhliða minnkandi eftirspurn eftir bílastæðum.

Slíkt yrði allra hagur því strætófarþegar eru ekki frekir til plássins í sínum ferðamáta. Þeir stuðla ekki að auknu flæmi bílastæða eða annarra dýrra umferðarmannvirkja, sem er hagkvæmt fyrir þjóðarbúið. Að auki stuðlar bíllaus lífsstíll að fegurra umhverfi og afslappaðra mannlífi.

 




Skoðun

Sjá meira


×