Erlent

Henning Mankell var um borð í einu skipanna

Henning Mankell.
Henning Mankell.

Sænski glæpasagnahöfundurinn Henning Mankell var um borð í einu skipanna sem ísraelski herinn stöðvaði í nótt þegar skipin voru á leið með hjálpargögn á Gaza. Þetta staðfestir talsmaður Mankells sem segist ekki hafa náð í hann síðan árásin var gerð.

Sænska ríkisstjórnin kallaði sendiherra Ísraels á sinn fund í morgun þar sem krafist var skýringa á árásinni sem Svíar segja fullkomlega óafsakanlega.

Skipalest með um tíuþúsund tonn af hjálpargögnum sigldi frá Kýpur áleiðis til Ísrael en til stóð að dreifa hjálpargögnunm á Gaza svæðinu. Ísraelar höfðu lýst því yfir að skipin fengju ekki að koma til hafnar og stóðu við það. Sérsveitir ísraelska hersins fóru í nótt um borð í stærsta skipið og tóku það yfir. Í átökum sem upp blossuðu á milli áhafnar og hermanna féllu að minnsta kosti 19 áhafnarmeðlimir.

Ísraelar segjast hafa verið að verja sig en talsmenn samtaka um frelsun Gaza, sem stóðu að baki skipalestinni, segja að Ísraelar hafi brugðist allt of hart við og þeir neita því að fólkið um borð í skipinu hafi gripið til ofbeldis. Ísraelski flotinn hefur nú tekið yfir öll skipin og verður þeim siglt til hafnar í Ashdod þar sem fólkinu verður skipað frá borði.

Að því loknu verður hjálpargögnunum komið til gaza að sögn. Mahmoud Abbas, forseti Palestínu hefur fordæmt framferði ísraela í málinu og talað um blóðbað. Flestir áhafnarmeðlima voru Tyrkir og í Ístanbúl hafa þúsundir mótmælt við sendiráð Ísraels.

Árásin kemur á viðkvæmum tíma fyrir ísraelsk stjórnvöld en til stóð að Barack Obama bandaríkjaforseti myndi hitta Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísrael í Washington. Netanyahu hefur nú snúið heim á leið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×