Skoðun

Gallað Stjórnlagaþing, kjósum samt

Sveinn Valfells skrifar
Stjórnlagaþing á Íslandi er löngu tímabært. Stjórnarskráin er leyfar frá dönsku nýlendustjórninni sem velkst hefur í höndum hins spillta flokkakerfis um áratuga skeið án nauðsynlegra endurbóta.

Stjórnlagaþing sem nú fer í hönd er hins vegar um margt meingallað. Boðað til þess með allt of stuttum fyrirvara fyrir kjósendur að kynna sér málefni. Frambjóðendur fengu mjög stuttan frest til að bjóða sig fram, og einnig er mjög skammur tími til kynna sér þau fjölmörgu framboð sem komu fram.

Alþingi á heldur ekki að fjalla um niðurstöðuna. Alþingi er ekki lýðræðislega kosið, kjósendum er mismunað eftir búsetu og atkvæði þeirra bundin við flokkslista. Nýja stjórnarskrá á að leggja beint fyrir þjóðina.

En ég fór samt í sendiráðið og kaus. Það er margt gott fólk í framboði sem staðið hefur utan við gamla, spillta kerfið. Meðal þeirra sem voru í efstu sætum á kjörseðlinum mínum voru Ágúst Valfells föðurbróðir minn, fyrrverandi forstöðumaður Almannavarna og prófessor í Bandaríkjunum; Magnús Thoroddsen, hrl og fyrrverandi forseti Hæstaréttar, sem sótt hefur mál fyrir sjómenn sem vilja jafnræði í úthlutun kvóta; Eyjólfur Ármannsson lögfræðingur hjá efnahagsbrotadeild lögreglu; Íris Erlingsdóttir blaðakona; Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði; og Salvör Nordal, einn höfunda kafla Rannsókarskýrslu Alþingis um siðferði bankahrunsins.

Það var auðvelt að fylla fljótlega næstum allan kjörseðilinn af mjög frambærilegu fólki, konum og körlum héðan og þaðan úr þjóðfélaginu, bæði þjóðkunn nöfn og óþekkt. Allt það fólk sem ég kaus hefur starfað meira og minna utan kerfis undanfarin ár, gagnrýnt kerfið og reynt að laga það í stað þess að starfa inn í kerfinu og notfæra sér það.

Vonandi verður þetta Stjórnlagaþing eitthvað meira en sjónarspil, eitthvað meira en tugga gömlu, spilltu flokkanna sem hent er upp í þjóðina til að hafa hana góða. Vonandi leggur það drög að betra þjóðfélagi. Vonandi munu sem flestir Íslendingar kjósa.






Skoðun

Sjá meira


×