Innlent

Likir stjórnarflokkunum við gömlu kommúnistaflokkana

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að stjórnarflokkarnir í ríkisstjórninni líkist meira og meira gömlu kommunistaflokkunum eftir því sem gagnrýni á stefnu þeirra eykst. Birgitta Jónsdóttir býður Lilju velkomna í Hreyfinguna.

Mikil óánægja er meðal margra flokksmanna Vinstri grænna eftir flokksráðsfundinn í gær, en flokkurinn virðist skiptast í tvær fylkingar. Annars vegar eru það sem sumir hafa nefnt órólega arm flokksins, með Lilju Mósesdóttur og Ásmund Einar Daðason í broddi fylkingar og hins vegar eru þau sem sýna Steingrími J. Sigfússyni formanni flokksins aukna hollustu og fylgja forystu flokksins að málum. Þeir sem sátu fundinn í gær segja andrúmsloftið á fundinum endurspegla ástandið í flokknum, en einn fundarmanna sagði á fundinum í gær að í Vinstri grænum væru tveir flokkar.

Meðal þess sem tekist var á um á fundinum var tillaga um að endurskoða fjárlögin frá grunni en henni var hafnað og vísað til þingflokksins og ríkisstjórnarinnar.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður virðist afar óánægð með niðurstöðu fundarins og segir á Facebook-síðu sinni í dag að stjórnarflokkarnir, þ.e Samfylkingin og Vinstri grænir, líkist meira og meira gömlu kommúnistaflokkunum eftir því sem gagnrýnin á forystuna aukist. Fundir verði að hátíðarsamkomum til að hylla leiðtogana og ekkert muni gerast fyrr en boðað verði til kosninga. Skilja má þessi ummæli þannig að Lilja vilji boða til kosninga.

Þá veltir Lilja fyrir sér í athugasemdum á vefsíðunni hvort einhver munur sé á stefnu stjórnarflokkanna og Sjálfstæðisflokksins hvað varðar niðurskurð í velferðarkerfinu, afstöðunni til skuldavanda heimilanna og samstarfsins við AGS. Forystufólk í Vinstri grænum sem fréttastofa ræddi við sagði að lýðræðið í Vinstri grænum hafi sýnt sig í verki því skilyrðislaus stuðningur við ríkisstjórnina hafi verið áréttaður á fundinum í gær og það ekki í fyrsta sinn, á stuttum tíma, sem flokksforystan og ríkisstjórnin hefðu fengið slíka staðfestingu.

Fréttastofa reyndi margítrekað að ná tali af Lilju í dag án árangurs. Birgitta Jónsdóttir blandaði sér í umræðuna á síðu Lilju. Í samtali við fréttastofu í dag sagði hún Lilju velkomna í Hreyfinguna, eins og fleiri sem væru í erfiðleikum innan sinna flokka. Hún sagði þó enga fundi hafa átt sér stað milli Lilju og þingmanna Hreyfingarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×