Viðskipti innlent

Forsetinn þrýstir á Breta með Norðurskautsleiðinni

Viðskiptablaðið Financial Times segir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands þrýsti nú á Breta að gefa eftir í Icesavedeilunni með því að vísa í fyrirsjáanlega opnun Norðurskautsleiðarinnar.

Í blaðinu segir að Mr Grimsson telji að staðsetning Íslands á útjarði bráðnandi Norðurskautssvæðisins muni verða blessun fyrir landið þegar það endurreisir efnahag sinn. „Ísland liggur í miðpunkti þeirra siglingaleiða sem eru að opnast. Það mun tengja Asíu á nýjan hátt við Evrópu og Norður Ameríku á svipaðan hátt og Súez skurðurinn gerði á sínum tíma," hefur blaðið eftir forsetanum.

„Tilvísun hans í Súez, vettvang þekktra mistaka í utanríkisstefnu Breta á sjötta áratugnum, er aðvörun til Bretlands um að meira sé í húfi fyrir þá en peningar í áframhaldandi baráttu við Ísland um 3,9 milljarða evra sem töpuðust við hrun Icesave bankans," skrifar Financial Times.

Ennfremur segir að Mr Grimsson vari sig á því að tengja ekki Iceasave beint við staðsetningu Íslands í heiminum. Hann er hinsvegar fljótur að benda á að bæði Kínverjar og Indverjar hafa sýnt Íslandi áhuga sem umskipunarstöð á Norðurskautssvæðinu. „Skilaboðin eru að Ísland er þjóð sem Bretar ættu að vera að sverma fyrir en ekki beita bolabrögðum," segir Financial Times.

„Þú þarft að vera með harðlokuð augu til að sjá ekki mikilvægi norðursins í þróun alþjóðaviðskipta og orku. Þegar þú lítur á landakort sérðu að Ísland er í miðju þess," segir forsetinn.

Financial Times segir að Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands hafi viðurkennt mikilvægi þess að fá Ísland inn á hringbraut Evrópu og hann hefur gefið í skyn að Bretar hafi áhuga á að vera sveigjanlegri í samningum við Íslendinga. „Við viljum að Íslands sé hluti af meginstraumi Evrópu," segir Darling.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×