Skoðun

Börn í Kvennaathvarfinu

Út er komin, í samvinnu Forlagsins og Barnaverndarstofu, bókin Illi karl en hún fjallar um ofbeldi á heimilum og er öðruvísi en allar aðrar bækur sem ég hef lesið. Þó hef ég lesið aragrúa af bókum sem fjalla um ofbeldi á heimilum.

Bókin fjallar um Boga litla sem býr með mömmu sinni og pabba sem báðum þykir vænt um hann og um illa kall sem stundum tekur völdin af pabbanum og stjórnar heimilinu með harðri hendi. Hún fjallar því meðal annars um áhrif heimilisofbeldis á börn en börn á ofbeldisheimilum eru okkur í Kvenna­athvarfinu hugleikin. Á undanförnum fimm árum hafa þrjú hundruð og fjörutíu börn dvalið í Kvennaathvarfinu í allt frá einum degi upp í hundrað fjörutíu og þrjá daga. Börnin koma með mæðrum sínum vegna þess að dvölin heima er óbærileg vegna ofbeldis af hálfu heimilismanns eða einhvers annars tengdum fjölskyldunni. Þau bera heimilisaðstæður ekki endilega utan á sér og eru almennt bara eins og aðrir krakkar. Þau eru ýmist hlýðin eða óhlýðin og þau hleypa lífi í tilveruna í athvarfinu eins og krakka er siður. Þau eiga það til að dreifa dótinu sínu um húsið, mylja kex á gólfin, detta í stiganum og standa upp aftur. Þau hafa lag á að heilla starfskonurnar upp úr skónum og flækjast fyrir þeim í leiðinni. Þeim finnst gaman að fara í Húsdýragarðinn, í keilu og að gefa öndunum. Sumum finnst ævintýri að fara í strætó en fyrir öðrum er það í meira lagi hversdagslegur viðburður. Sum tala um ofbeldið en önnur minnast ekki á það einu orði. Oft missa þau þó eitthvað út úr sér sem gefur til kynna að ýmislegt hefur gengið á. Eins og drengurinn sem kom til enn einnar dvalarinnar og heilsaði með þeim orðum að þau ætluðu að gista aftur því pabbi væri svo reiður. Og bætti svo við „út af því að við gerum aldrei neitt rétt".

Þau hafa búið við aðstæður sem eru ekki mönnum, hvað þá litlum mannabörnum, bjóðandi. Og þessum aðstæðum, eða í það minnsta aðstæðum sumra þeirra, lýsir bókin Illi kall svo vel. Þar kemur fram að stundum leikur allt í lyndi heima hjá Boga en svo breytist allt og pabbi hættir að vera pabbi, mamma hættir að vera mamma og Bogi reynir að fylga reglum í leik sem engar reglur gilda í. Hann reynir að hafa ekki hátt og reita engan til reiði og mamma reynir að koma honum í skjól á heimili þar sem ekkert skjól er að finna. Svo dettur allt í dúnalogn en heimilislífið snýst áfram um ofbeldið, að tína upp brotin og lina þjáningar pabbans sem iðrast nú sárlega. Að fara varlega til að ósköpin dynji ekki á aftur.

Boðskapurinn í sögunni er sá að ofbeldi er ekki einkamál hverrar fjölskyldu, að það er ekki leyndarmál þeirrar tegundar sem best sé að þegja yfir heldur einmitt hið gagnstæða. En við fullorðna fólkið verðum að hafa í huga að ábyrgðin er okkar og að við verðum að leggja okkur eftir því að hlusta eftir sögðum orðum og ósögðum. Að vera þess minnug að á sumum heimilum ríkir styrjaldarástand þó að flestir pabbar séu alltaf, en ekki bara stundum, eins og Boga pabbi, „indælir eins og epli á borði og rúsínur í gulri skál".




Skoðun

Sjá meira


×