Erlent

Blikur á lofti í flugmálum í Evrópu

Flugmenn hjá Lufthansa frestuðu verkfalli sínu í gærkvöldi en fleiri verkföll eru yfirvofandi í flugbransanum í Evrópu.

Verkfall hófst í gærdag hjá flugmönnum þýska flugfélagsins Lufthansa og þurfti að aflýsa hundruðum ferða vegna þess. Í gærkvöldi féllust þeir síðan á að fresta aðgerðum sínum tímabundið til 9. mars á meðan unnið væri að sáttatillögu í deilunni.

Þó er búist við töfum í dag vegna aðgerða gærdagsins. Þetta er þó ekki eina verkfallið í þessum geira í Evrópu því franskir flugumferðarstjórar hafa boðað til verkfalls í dag auk þess sem 12 þúsund flugliðar hjá British Airvays samþykktu í gær að boða til verkfalls en engin dagsetning er komin á það hvenær það hefst.

Frönsku flugumferðarstjórarnir hefja sitt verkfall hins vegar í dag og er búist við að um 25 prósent af öllum ferðum um Charles de Gaulle flugvöllinn í París falli niður og helmingur allra ferða um Orly flugvöll.

Frakkarnir eru með aðgerðum sínum að mótmæla fyrirætlunum Evrópusambandsins um að samþætta og nútímavæða flumumferðarstjórnina innan sambandsins og óttast þeir að breytingin muni hafa fækkun starfa í för með sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×