Viðskipti innlent

Erlendir aðilar fá tæpa 90 milljarða í hendurnar

Nú í mánuðinum eru ríkisvíxlar að fjárhæð 20 milljarðar kr. á gjalddaga og þar af höfðu erlendir aðilar upphaflega keypt 16,7 milljarða kr. af þeim víxlum. Jafnframt er ríkisbréfaflokkurinn RIKB 10 0317 á gjalddaga eftir rétt rúma viku en sá flokkur er að langmestu leyti í eigu erlendra aðila. Þannig áttu erlendir fjárfestar um síðustu áramót ríflega 72 milljarða kr. af þeim 84 milljörðum kr. sem útistandandi eru í flokknum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Það er því ljóst að erlendir aðilar munu fá um 89 milljarða kr. í hendurnar á næstunni.

Mánaðarlegt útboð ríkisvíxla fer fram næstkomandi fimmtudag klukkan 11:00 hjá Lánamálum ríkisins. Í boði verða víxlar með gjalddaga 15. júlí 2010 og ræður hæsta samþykkta ávöxtunarkrafa kröfunni í öllum teknum tilboðum líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

„Við eigum von á töluverðum áhuga á útboðinu sem fer fram nú í vikunni og að erlendir aðilar verði þar atkvæðamiklir líkt og í undanförnum víxlaútboðum," segir í Morgunkorninu.

Í ríkisvíxlaútboði febrúarmánaðar reyndist eftirspurn mikil og reyndist bæði fjárhæð heildartilboða og þeirra tilboða sem tekið var sú mesta síðan í útboði nóvembermánaðar. Þannig námu heildartilboð í flokkinn RIKV 10 0615 ríflega 37,4 milljörðum kr. að nafnverði og var tilboðum tekið fyrir 24,3 milljarða kr. á 7,85% flötum vöxtum.

Jafnframt voru vaxtakjör ríkissjóðs betri í útboðinu en í ríkisvíxlaútboðinu í janúar þegar niðurstöðuvextir voru 8% enda höfðu skammtímavextir almennt lækkað nokkuð í kjölfar 50 punkta vaxtalækkunar Seðlabankans í janúarlok.

„Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í febrúar en við teljum þó líklegt að erlendir aðilar hafi verið þar fyrirferðamiklir. Í lok janúar áttu þeir 70% allra útistandandi ríkisvíxla," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×