Erlent

Mitchell frestar för til Ísraels

Átök við Ramallah Hópur Palestínumanna á hlaupum eftir átök við ísraelska hermenn norðan við Ramallah.fréttablaðið/AP
Átök við Ramallah Hópur Palestínumanna á hlaupum eftir átök við ísraelska hermenn norðan við Ramallah.fréttablaðið/AP

Deilur Ísraela og Bandaríkjastjórnar harðna dag frá degi. Í gær ákvað George Mitchell, sérlegur fulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Mið-Austurlanda, að fresta ferð sinni til Ísraels.

Bandaríkjamenn hafa krafist þess að Ísraelar afturkalli leyfi til að byggja 1.600 íbúðir fyrir gyðinga í Austur-Jerúsalem, hinum arabíska hluta borgarinnar sem Palestínumenn vilja að verði höfuðborg Palestínuríkis.

Palestínumenn setja það að skilyrði fyrir framhaldi friðarviðræðna, sem legið hafa niðri í fjórtán mánuði, að Ísraelar hætti við þessi áform.

Benjamin Netanjahú, forsætis­ráðherra Ísraels, sér þó enga ástæðu til að verða við þeirri kröfu.

„Bygging þessara íbúða fyrir gyðinga skaðar á engan hátt arabana í Austur-Jerúsalem og hafa ekki kostað þá neitt,“ sagði Netanjahú á mánudag, en hafði reyndar beðist afsökunar á því að tilkynning um leyfið hefði komið meðan Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, var í heimsókn í síðustu viku.

Átök og skærur hafa verið í gamla hluta Jerúsalemborgar nær daglega undanfarið vegna þessa.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×