Erlent

Vorum bara í sjálfsvörn gegn múslimum í Bosníu

Óli Tynes skrifar
Radovan Karadzic leiðtogi Bosníuserba.
Radovan Karadzic leiðtogi Bosníuserba.

Radovan Karadzic fyrrverandi leiðtogi Bosníuserba sagði í dag að málstaður Serba hafi verið réttlátur og heilagur í stríðinu í Bosníu.

Karadzic var að hefja vörn sína fyrir Alþjóða stríðsglæpadómstólnum í Haag. Ákæra hans er í ellefu liðum þar á meðal um þjóðarmorð og stríðsglæpi.

Meðal annars er hann ákærður fyrir morðin á um áttaþúsund múslimakörlum og drengjum í bænum Srebrenica.

Karadzic vísaði ákærunum á bug og sagði að Serbar hafi aðeins verið að verja hendur sínar gegn múslimum sem hafi viljað ná eitthundrað prósent völdum í Bosníu.

Radovan Karadzic var handtekinn í Belgrað árið 2008 eftir að hafa farið huldu höfði í nær þrettán ár. Talið er að yfir 100 þúsund manns hafi fallið í Bosníustríðinu. Yfirgnæfandi meirihluti var múslimar.

Karadzic er æðsti leiðtogi Serba sem komið hefur fyrir stríðsglæpadómstólinn síðan Slobodan Milosevic fyrrverandi forseti Júgóslavíu. Milosevic lést úr hjartaslagi árið 2006 skömmu áður en réttarhöldum yfir honum lauk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×