Viðskipti innlent

Bréfin engin sönnun heldur formlegt svar á háspenntum tímum

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrum viðskiptaráðherra, segir bréfin tvö sem birtust í hollenskum fjölmiðlum í gær, og átti að styðja við fullyrðingar Nout Wellink, seðlabankastjóra Hollands og Arnolds Schilder, yfirmanns hollenska bankaeftirlitsins um að íslenska ríkið hefði logið um stöðu Landsbankans fram á síðasta dag, vera formleg svör ráðuneytisins. Hann segir orðalagið mjög vandlega hugsað og gefi ekkert annað í skyn en að ríkið myndi standa á bak við sjóðinn færi illa fyrir Landsbankanum.

Bréfin birtust á hollenskum vefmiðlum í gær og voru bréfaskriftir á milli viðskiptaráðuneytisins og breska fjármálaráðuneytisins.

Í fyrra bréfinu sagði meðal annars að íslenska ríkið myndi styðja við sjóðinn eins og ábyrg stjórnvöld myndu gera færi svo að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Svo var bætt um betur og sagt að ríkið myndi að auki styðja við sjóðinn fjárhagslega til þess að hann gæti tryggt lágmarksupphæð innistæðueiganda.

Seinna bréfið, sem viðskiptaráðuneytið sendi til breska fjármálaeftirlitsins þann 5. október, sagði að íslenska ríkið myndi styðja við tryggingainnistæðusjóðinn til þess að mæta lágmarkstryggingaupphæð innistæðueigenda færi Landsbankinn á hausinn. En þá voru ekki nema örfáir dagar í fall bankans.

„Þetta var formlegt svar á gríðarlega háspenntum tímum," sagði Björgvin um bréfin. Hann tekur fram að þegar seinna bréfið var ritað var ástandið hér á landi mjög viðkvæmt enda aðeins örfáir dagar í kerfishrun íslensku bankanna.

Þá bendir Björgvin á að bréfin hafi verið opinber í meira en ár og því engin leyndarmál að finna í þeim. Spurður hvort þessum bréfum hafi verið haldið gegn Íslandi í viðræðum um ábyrgð á Icesave-skuldinni segir hann þvert á móti það sýna að Ísland hafi alltaf ætlað að standa við sínar skuldbindingar.

Eftir að seðlabankastjóri Hollands og yfirmaður hollenska bankaeftirlitsins báru lygar upp á íslensk stjórnvöld hefur Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, fyrirskipað rannsókn á þeim ásökunum.

„Ég fagna þessari rannsókn," segir Björgvin um rannsóknina en sjálfur skrifaði hann bréf í hollenskt dagblað sér til varnar þar sem hann sagði það ekki rétt að íslensk stjórnvöld hefðu logið að þeim hollensku.

„Enda voru samskipti ríkisstjórnanna engin," segir Björgvin þó svo að samskipti hafi verið á milli seðlabanka og fjármálaeftirlita landanna.






Tengdar fréttir

Hollendingar segja Íslendinga víst hafa logið - sýna bréf til sönnunar

Hollenski vefmiðillin RTLZ birti í gær bréfasamskipti á milli viðskiptaráðuneytisins á Íslandi við breska fjármálaráðuneytið og telur greinarhöfundur bréfin sýna fram á að Ísland hafi logið fram á síðasta dag um raunverulega stöðu mála og styðji því við fullyrðingar Nout Wellink, seðlabankastjóra Hollands og Arnolds Schilder, yfirmanns hollenska bankaeftirlitsins um meinar lygar íslenska ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×