Skoðun

Þjóðkirkjan og Ísland sem eitt kjördæmi

Bergvin Oddsson skrifar

Nú styttist í að kosið verði til stjórnlagaþings en það verður gert 27. nóvember nk. Á ferðum mínum um landið hefur mér sýnst mestur ágreiningur vera um tvö atriði en það er málefni þjóðkirkjunnar annars vegar og hugmyndarinnar um að Ísland verði eitt kjördæmi hins vegar.

Þjóðkirkjan

Í 62. gr. stjórnarskráarinnar segir að ríkið eigi að vernda og styðja við kirkjuna. Mér hefur alltaf þótt vænt um þjóðkirkjuna mína þó ég sé ekki trúaður maður. En er hægt að tala um þjóðkirkju ef innan við 2/3 landsmanna eru utan hennar? Svo er orðalag greinarinnar, að ríkið eigi að vernda og styðja við kirkjuna. Mætti ekki snúa þessu við og segja: kirkjan skal vernda og styðja íbúa landsins, því hlutverk kirkjunnar hefur í aldanna rás einmitt verið að styðja við þegna sína, veita þeim sálusorg í erfiðum aðstæðum og gleðjast með þeim á mikilvægum tímamótum, eins og við skírnir, fermingar eða giftingar. Það felst ákveðin þversögn í því að standa utan þjóðkirkjunnar en þyggja jafnframt þá þjónustu sem kirkjan veitir því kirkjugjald þeirra sem standa utan þjóðkirkjunnar rennur óskert í ríkissjóð.

Ísland sem eitt kjördæmi

Ég vona innilega að Ísland verði eitt kjördæmi eftir fáein ár. Það er jafnréttimál að þingmenn í SV kjördæmi og NV kjördæmi hafi jafn mörg atkvæði á bak við sig. Það er mín trú að ef Ísland verður eitt kjördæmi hætti hrepparígurinn sem einkennir svo mjög íslensk stjórnmál, sem og kjördæmapotið. Enda eiga þingmenn hvaðanæva af landinu að bera hag Íslands og þjóðarinnar fyrir brjósti, þ.e. hag heildarinnar. Hvernig væri ef þingmenn að vestan myndu beita sér fyrir Vaðlaheiðagöngum og þingmenn úr Reykjavík myndu beita sér fyrir aukinni menntun á háskólastigi á Suðurlandi? Ég tel það hagsmunamál almennings að fá loksins að kjósa fólk en ekki stjórnmálaflokka.






Skoðun

Sjá meira


×