Erlent

Góður pabbi

Óli Tynes skrifar

Moammar Gaddafi leiðtogi Libyu hefur lagt fæð á Sviss eftir að sonur hans Hannibal og eiginkona hans voru handtekin þar í landi í júlí árið 2008. Frúin var að fara á svissneskt sjúkrahús til að eignast barn.

Hjónin voru handtekin fyrir að ganga í skrokk á tveim þjónum sínum og sátu í gæsluvarðhaldi í tvo daga.

Þegar þau voru látin laus gegn tryggingu stungu þau af úr landi. Þjónarnir féllu síðar frá ákæru sinni.

Hannibal hefur iðulega ratað í fréttir fyrir fyllerí og ofbeldi, en Gaddafi stendur með syni sínum. Hann hefur því gripið til ýmissa hefndaraðgerða gegn Sviss.

Tveir svissneskir kaupsýslumenn voru handteknir í Libyu fyrir að vera í landinu lengur en vegabréfsáritun þeirra leyfði. Þeir voru einnig sakaðir um að hafa stundað viðskipti í leyfisleysi.

Mennirnir hafa haldið til í svissneska sendiráðinu í Tripoli svo mánuðum skiptir. Þeir þora ekki út fyrir dyr af ótta við að vera handteknir.

Nokkur svissnesk fyrirtæki hafa þurft að loka skrifstofum sínum í Libyu og flugferðum milli landanna hefur verið fækkað.

Libya hefur tekið meginhluta peninga sinna í Sviss út úr þarlendum bönkum. Það voru um 50 milljarðar dollara.

Á fundi G-8 ríkjanna á Ítalíu síðastliðið sumar lagði Gaddafi svo til að Sviss yrði leyst upp og skipt á milli Ítalíu, Frakklands og Þýskalands.

Sviss væri jú alheimsmafía en ekki þjóðríki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×