Viðskipti innlent

Myndarlegur afgangur hélt krónunni á floti

Myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á fjórða ársfjórðungi síðasta árs á eflaust talsverðan þátt í því hversu vel krónan hélt sjó á því tímabili þrátt fyrir talsverðar vaxtagreiðslur til útlendinga í desember.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ekki sé ástæða til að ætla annað en að áfram verði verulegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum enda er raungengi krónunnar enn afar lágt, verð okkar helstu útflutningsafurða talsvert hærra en raunin var fyrir ári síðan og innflutningur tengdur fjárfestingu og neyslu í lágmarki.

Það hlýtur líka að vita á gott hversu önnur þjónusta en ferðalög og flutningar var að skila vaxandi gjaldeyristekjum nettó á síðasta ári. Þjónustujöfnuður fylgir raunar talsvert betur eftir breytingum á raungengi krónu en vöruskiptajöfnuður þar sem vöruútflutningur býr við framboðsskorður (fiskkvóti, framleiðslugeta álvera) sem ekki há útflutningi þjónustu. Eru góðar líkur á að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum verði enn meiri á yfirstandandi ári en hann var í fyrra.

Mikil breyting til hins betra hefur orðið á þjónustujöfnuði undanfarið og hefur afgangur tekið við af viðvarandi halla. Samkvæmt nýbirtum tölum var 8 milljarða kr. afgangur af þjónustujöfnuði á síðasta fjórðungi ársins 2009. Þjónustutekjur voru 71,1 milljarða kr. á fjórðungnum en þjónustugjöld 63,1 milljarða kr.

„Niðurstaðan er með skásta móti miðað við væntingar okkar, enda þjónustujöfnuðurinn ávallt með óhagstæðara móti á þessum árstíma. Þetta þýðir að á síðasta ári í heild var 39,3 ma.kr. afgangur af þjónustujöfnuði, og alls var 126,5 ma.kr. afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd í fyrra. Það samsvarar u.þ.b. 8,5% af áætlaðri VLF ársins 2009, sem er töluvert meiri afgangur en Seðlabankinn spáði í janúar (6,7%)," segir í Morgunkorninu



Samgöngur lögðu til drýgstan hluta afgangs af þjónustujöfnuði í fyrra, en á þeim lið var tæplega 36 milljarða kr. afgangur. Hins vegar náðu tekjur af erlendum ferðamönnum ekki fyllilega að jafna sambærileg útgjöld vegna ferðalaga landans erlendis og var 7,6 milljarða kr. halli á þeim lið í fyrra. Önnur þjónusta skilaði svo nettó 11 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur árið 2009. Af þeim afgangi komu raunar 8 milljarðar kr. í hús á síðasta fjórðungi ársins, en það er langmesti afgangur sem sést hefur á þessum lið í einum ársfjórðungi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×