Erlent

Geimtíkin Laika hlaut ömurlegan dauðdaga

Óli Tynes skrifar
Laika í geimfarinu.
Laika í geimfarinu.

Rússneska tíkin Laika varð heimsfræg árið 1957 þegar hún varð fyrsta lífveran sem send var á braut um jörðu í geimfarinu Sputnik 2. Aldrei var gert ráð fyrir að hún slyppi lifandi úr þeirri ferð, þar sem geimfarið myndi brenna upp þegar það kæmi aftur inn í gufuhvolfið.

Rússar héldu því lengi fram að hún hefði verið svæfð áður en súrefni hennar þraut. Danskur sagnfræðingur þykist nú hafa komist að hinu sanna. Anne-Mette Hansen segir að nemar sem settir voru á Laiku hafi sýnt að hjartsláttur hennar þrefaldaðist í flugtakinu.

Síðan jókst hiti og raki í geimfarinu og eftir sjö klukkustundir var ekkert lífsmark með tíkinni. Hún drapst úr hræðslu og ofhitnun. Sputnik 2 fór 2.570 hringi umhverfis jörðu en brann upp þegar hann kom inn í gufuhvolfið 14. apríl árið 1958.

Í athugasemdum við frétt um þetta í danska blaðinu BT segir að þetta hafi fyrir löngu komið fram. Uppfletting í Google sýnir að það er rétt.

En þetta er þó nýr fróðleiksmoli fyrir þá sem ekki hafa heyrt þetta áður.

Bæði Bandaríkjamenn og Rússar höfðu sent dýr út í geiminn fyrir ferð Laiku og þau komu flest lifandi til baka. Frægð Laiku byggðist á því að vera fyrsta lífveran sem fór á braut um jörðu.

Eins og við var að búast var mikil og heit umræða um siðferði þess að senda dýr út í geiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×