Erlent

Flugmaður með mynd eftir Michelangelo í stofu sinni

Bandarískur flugmaður sem búsettur er í Niagra Falls er eigandi málverks sem gæti vel verið fleiri milljarða króna virði

Um er að ræða mynd af Jesú og Maríu mey sem máluð er á panel og talin vera eftir sjálfan Michelangelo. Ítalski listfræðingurinn Antonio Forcellino, sem rannsakað hefur verkið undanfarin fimm ár, er ekki í vafa um að Michaelangelo sé höfundurinn og að hann hafi málað myndina snemma á sextándu öld. Sé það rétt er þetta aðeins eitt af þremur panelmálverkum sem vitað er um að meistarann hafi málað.

Forcellino hefur fundið upplýsingar um verkið í skjalasafni Vatikansins, þar á meðal að Reginald Pole kardináli, frændi Hinriks áttunda Englandskonungs, hafi boðið ítölskum kollega sínum málverkið til sölu um miðja sextándu öld.

Eftir það skipti málverkið um eigendur nokkrum sinnum og kom til Bandaríkjanna árið 1905. Ekki fylgir sögunni hvernig verkið komst í hendur flugmannsins en ef það fer nokkurn tímann á uppboð mun það slá öll sölumet. Verkið prýðir nú vegg í borðstofu flugmannsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×