Innlent

Upphaf Paradísar lofar góðu

Lovísa Óladóttir segir að fyrstu vikurnar í Bíói Paradís hafi gengið vel. Fréttablaðið/Anton
Lovísa Óladóttir segir að fyrstu vikurnar í Bíói Paradís hafi gengið vel. Fréttablaðið/Anton
Einn og hálfur mánuður er liðinn síðan Bíó Paradís tók til starfa í gamla Regnboganum. Þessum nýju heimkynnum listrænna bíómynda, klassískra mynda og kvikmyndahátíða hefur verið vel tekið að mati Lovísu Óladóttur framkvæmdastjóra.

Fjórir salir eru í bíóinu og því þarf aðsóknin að vera góð til að reksturinn standi undir sér. Lovísa segir hana svipaða og búast mátti við. „Fyrstu vikurnar hafa gengið vel og þetta lofar rosalega góðu. Við hvetjum alla til að koma og vera með okkur í þessu því öðruvísi mun þetta ekki ganga," segir hún.

Hlýlegt kaffihús er í Bíói Paradís, sem hingað til hefur aðeins verið opið á sama tíma og bíóið. Að sögn Lovísu er í pípunum að hafa kaffihúsið opið enn lengur. „Tækifærin eru gríðarleg í forsölunum tveimur fyrir hina ýmsu viðburði og það er hægt að halda uppi mjög skemmtilegu fjörutíu manna kaffihúsi þar þegar best lætur. Þarna er heimilis­leg stemning, gömul sófasett og íslenska kvikmyndasagan á veggjunum."

Næstu tvær vikurnar verða sýndar þær myndir sem voru tilnefndar til Norrænu kvikmyndaverðlaunanna. Einnig verður sýnd í bíóinu heimildarmyndin Með hangandi hendi sem fjallar um Ragga Bjarna. - fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×