Viðskipti innlent

Stærstu eigendur Landsbankans og Glitnis hugsanlega krafðir um bætur

Slitastjórnir Landsbankans og Glitnis skoða nú möguleika á því að krefja fyrrverandi stærstu eigendur bankans um skaðabætur vegna tjóns sem grunur leikur á að þeir hafi valdið bankanum.

Slitastjórnir allra gömlu bankanna rannsaka nú hvort tilefni sé til að höfða skaðabótamál gegn fyrrverandi stjórnendum. Rannsóknin beinist að því hvort að þeir hafi gert einhverjar ráðstafanir sem gætu reynst bótaskyldar en slíkar kröfur eru taldar geta numið milljörðum króna. Það eru þó ekki einungis stjórnendur sem geta verið bótaskyldir.

Heimildir fréttastofu herma að slitastjórn Landsbankans kanni einnig hvort að eigendur hafi með háttsemi sinni skapað bankanum tjón. Skiptir þá engu þó að viðkomandi hafi ekki átt sæti í stjórn bankans en rannsakað er hvort að þeir hafi með óbeinum hætti komið að ákvörðunartöku um lánveitingar sem voru í andstöðu við útlánareglur bankans. Gæti það t.a.m. verið lánveitingar gegn ótraustum veðum eða lánveitingar til tengdra aðila eða jafnvel í einkaverkefni þeirra.

Heimildir fréttastofu herma að meðal annars Björgólfur Thor Björgólfsson sé til skoðunar. Hann átti Samson eignarhaldsfélag með föður sínum Björgólfi Guðmundssyni sem fór að jafnaði með um fjörutíu prósenta hlut í Landsbankanum. Steinunn Guðbjartsdóttir sem á sæti í slitastjórn Glitnis staðfesti í samtali við fréttastofu að einnig sé verið að skoða hvort tilefni sé til að krefja fyrrverandi eigendur bankans um skaðabætur.

Samkvæmt hlutafélagalögum eru stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skyldir til að bæta hlutafélagi það tjón sem þeir hafa valdið því í störfum sínum. Það er aftur á móti ekki fordæmalaust að hluthafar séu krafðir um skaðabætur við gjaldþrot fyrirtækis. Dómaframkvæmd sýnir að ráðandi eigendur geta talist skuggastjórnendur og borið ábyrgð samkvæmt því.

Hjá Kaupþingi fengust þær upplýsingar að eigendur séu ekki til skoðunar, heldur stjórnarmenn sem sátu fyrir þeirra hönd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×