Innlent

Rúmlega 107 þúsund nemar á Íslandi

Mynd/Anton Brink
Heildarfjöldi nemenda á öllu landinu skólaárið 2009-2010 er 107.012. Þeim hefur fjölgað um 1529 frá árinu áður eða um 1,4%. Þetta kemur fram á heimasíðu Hagstofunnar.

Á yfirstandandi skólaári eru skráðir 18.699 nemendur á leikskólastigi, 42.929 nemendur á grunnskólastigi, 26.364 nemendur á framhaldsskólastigi og 19.020 á skólastigum ofar framhaldsskólastigi.

Um 95% 16 ára ungmenna sækja skóla

Undanfarin þrjú ár hefur skólasókn 16 ára ungmenna á landsvísu haldist óbreytt og verið 93% sé miðað við öll kennsluform, það er dagskóla, kvöldskóla og fjarnám. Haustið 2009 er skólasókn 16 ára komin í 95% og hefur því hækkað um tvö prósentustig frá fyrra ári. Aldrei fyrr hafa jafn margir 16 ára unglingar sótt framhaldsskóla, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Nokkur munur er á skólasókn 16 ára ungmenna eftir landshlutum. Hlutfallslega flestir 16 ára unglingar sækja skóla á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur og á Vestfjörðum en þar er skólasókn 97% og hefur aldrei verið hærri. Hins vegar sækja hlutfallslega fæstir skóla á Suðurnesjum en þar sækja 92% 16 ára ungmenna skóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×