Enski boltinn

Anelka spilar með Chelsea í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Það fara fram þrír leikir í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Chelsea, Arsenal og Liverpool verða öll í eldlínunni.

Chelsea tekur á móti Bolton og Nicolas Anelka mun snúa aftur í lið Chelsea en hann hefur misst af síðustu leikjum vegna meiðsla. John Obi Mikel getur aftur á móti ekki leikið vegna meiðsla.

Það hefur hvorki gengið né rekið síðustu vikur hjá Chelsea og meiðsli leikmanna hafa ekki hjálpað. Meiðslin hafa sannað að breiddin hjá Chelsea er ekki sú sama og áður.

"Við getum ekki breytt liðinu mikið milli leikja vegna meiðsla. Ég get þó sett Anelka, Bosingwa og Ramires í liðið í kvöld en þeir voru ekki með gegn Arsenal," sagði Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea.

"Ég er að vonast til þess að Frank Lampard geti spilað 90 mínútur á nýjan leik. Hann fann ekkert fyrir meiðslunum gegn Arsenal og er í góðu formi. Það er samt ekkert auðvelt að byrja að spila á nýjan leik eftir að hafa verið frá í þrjá mánuði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×