Handbolti

Markvörður Austurríkis: Mikil óánægja í Serbíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd)Diener/Leena Manhart

Markvörður austurríska landsliðsins, Nikola Marinovic, segir að serbneska landsliðið sé undir mikilli pressu fyrir leik kvöldsins gegn Austurríki á EM í handbolta.

Sjálfur er Marinovic fæddur og uppalinn í Serbíu en hann spilar nú fyrir hönd austurríska landsliðsins. Hann er á mála hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Balingen.

Marinovic hefur ekki náð sér almennilega á strik í keppninni en varði þó gríðarlega mikilvægt skot frá Guðjóni Val Sigurðssyni þegar hálf mínúta var eftir af leik Austurríkis og Íslands á fimmtudagskvöldið. Þá skoraði Austurríki þrjú mörk á síðustu 50 sekúndum leiksins og tryggði sér 37-37 jafntefli.

„Ég var í miklu sjokki eftir leikinn og gat fyrst sett þetta allt í samhengi í nótt,“ sagði hann á blaðamannafundi austurríska landsliðsins í gær.

„Ég er auðvitað afar ánægður með stigið og tel að við séum á réttri leið. Við verðum þó að halda áfram að bæta okkur.“

Austurríki mætir Serbíu í fyrri leik dagsins í lokaumferð riðlakeppninnar í Linz. Sigurvegari leiksins kemst áfram í milliriðlakeppnina en jafntefli mun duga Austurríki.

Serbar töpuðu fyrir Dönum á fimmtudagskvöldið og þurfa því á sigri að halda í kvöld. Marinovic þekkir vel til í Serbíu og segir að mikil óánægja ríki meðal handboltaáhugamanna þar.

„Það er frekar neikvæð umfjöllun um liðið í fjölmiðlum. Það er kominn nýr landsliðsþjálfari [Saed Hasanefendic] og nýr leikstíll. Liðið þykir spila leiðinlegri handbolta en á HM í fyrra og því eru stuðningsmenn liðsins mjög óánægðir. Liðið er því undir mikilli pressu eins og er.“

Hann segir að það verði sérstakt fyrir sig að spila í þessum leik. „Ég þekki alla þessa stráka mjög vel og til dæmis búa foreldrar mínir enn í Serbíu. En þetta er eitthvað sem ég mun ekki hugsa um á meðan leiknum stendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×