Erlent

Leita að kínverskum júnkum á hafsbotni

Óli Tynes skrifar
Kínverskar júnkur.
Kínverskar júnkur.

Kína og Kenya hafa undirritað samkomulag um að leita að kínverskum júnkum sem fórust við austurströnd Afríku fyrir 600 árum.

Leitin mun standa í þrjú ár og verður leitað í þrjá mánuði á hverju ári. Það er kínverska viðskiptaráðuneytið sem borgar brúsann.

Skipin eru talin hafa tilheyrt miklum flota sem flotaforinginn Zeng He stýrði. Flotinn kom til hafnarbæjarins Malindi í Kenya árið 1418.

Það hefur lengi lifað í kenískum sögnum að skipreika kínverskir sjómenn hafi sest þar að og kvænst innfæddum konum.

Frá 1405 til 1433 stýrði Zeng He sjö leiðöngrum til þess að örva viðskipti og viðurkenningu á Ming keisaradæminu sem tók við völdum í Kína árið 1368.

Keisararnir misstu þó fljótlega áhuga á umheiminum og leiðöngrunum var hætt meira en hálfri öld áður en Kólumbus kom til Nýja Heimsins.

Kínverjar hafa mjög haldið Zeng He á lofti undanfarin ár til vitnis um friðsamleg samskipti við önnur lönd.

Sagan sýnir þó að skip hans voru vel vopnum búin og tóku þátt í að minnsta kosti þrem meiriháttar hernaðaraðgerðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×