Skoðun

Þarf að ræða þetta eitthvað frekar?

Hans Guttormur Þormar skrifar

Palli, Sigga og Eiki eru að hugsa um að fara á frumsýningu í bíó. Það sérkennilega við bíóhúsið er hins vegar að það býður bíógestum að semja um miðaverð.

Palla langar eiginlega ekkert að fara á þessa mynd en fer í samningaviðræður vegna þrýstings frá Siggu og Eika. Hann myndi því sennilega reyna að gera samning um svo lágt miðaverð að hann fengi það aldrei í gegn. Það myndi líka henta honum best.

Siggu langar að fara í bíó en er ekki tilbúin að borga allt of mikið fyrir það. Hún fer í samningaviðræður með það markmið að ef hún fær miðann á viðunandi verði, þá fer hún í bíó.

Eika langar mjög mikið til að fara á þessa mynd og fer í samningaviðræður með það að markmiði að komast í bíó. Hann kemur því sennilega til með að borga hæsta miðaverðið.

Hverjum af þessum þremur myndir þú treysta best til að semja um miðaverð í bíó fyrir þína hönd?

Samninganefnd og samningahópar Íslands um aðild að Evrópusambandinu munu á næstu mánuðum vinna rýnivinnu vegna samningaferilsins sem svo fer í gang eftir að þeirri vinnu er lokið. Þrátt fyrir að hver samningahópur samanstandi af tíu til tuttugu einstaklingum er nánast undantekningarlaust um að ræða hagsmunatengda aðila sem annað hvort eru nú þegar á móti eða meðfylgjandi aðild að Evrópusambandinu (líkt og Palli og Eiki hér að ofan).

Heildarhagsmunir þjóðarinnar með eða án ESB til framtíðar eru fyrir borð bornir.

Lítið bólar á því sem öllu máli skiptir, að það séu heildarhagsmunir þjóðarinnar, almennings í landinu sem eigi að ráða úrslitum. Hver þessara hagsmunaaðila í samningahópunum hugsar eingöngu um sig og fáir þeirra munu taka tillit til heildarhagsmuna þjóðarinnar. Í þessu máli hefur utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson ákveðið að skilja Siggu (þjóðina) eftir heima og bjóða Palla og Eika (sérhagsmunaöflunum) að sjá um málið eða einmitt þeim aðilum sem ég myndi síst treysta til að reyna að semja um aðild fyrir mína hönd. Einsleitnin er mjög áberandi og til dæmis eru í samninganefnd um sjávarútvegsmál þrír aðilar frá LÍÚ, þrír aðilar frá Alþýðusambandinu, auk aðila frá Farmanna- og fiskimannasambandi, samtökum fiskvinnslu, framleiðslu og útflytjenda, kvótamarkaðar o.s.frv.

Allir þessir einstaklingar eru kallaðir til til að gæta sérhagsmuna sinna félagsmanna en fáir hafa þá yfirsýn sem þarf til að spyrja hvort þetta þjóni eða þjóni ekki framtíðarhagsmunum þjóðarinnar. Starfsmenn ráðuneytanna geta seint talist hagsmunagæsluaðilar almennings. Eina bakland þjóðarinnar er hugsanlega að finna í örfáum einstaklingum samningahópa og aðalsamninganefndar en þeir geta lítið aðhafst vegna þeirrar slagsíðu öfgaviðhorfa sem einkennir samningahópana.

Við þurfum að hætta að hlusta á Palla og Eika. Þeirra skoðanir eru eingöngu byggðar á sérhagsmunum og því eiga þeir engan rétt til að sitja einir að samningaborðinu. Það er mín von að utanríkisráðherra finni fleiri „Siggur" í hverja nefnd, til að gæta að heildarhagsmunum íslensku þjóðarinnar. Það þarf að meta í hvaða stöðu þjóðin er núna og hvað væru bestu kostirnir með eða án ESB, í hvaða stöðu þjóðin verður ef til inngöngu kemur og í hvaða stöðu þjóðin verður hugsanlega eftir nokkra áratugi hvort sem af inngöngu verður eða ekki. Einungis eftir þannig undirbúning og samningsferli er mögulegt fyrir þjóðina að taka upplýsta ákvörðun um hvort aðild að Evrópusambandinu sé vænlegur kostur eða ekki.








Skoðun

Sjá meira


×