Erlent

Vilja að Pakistanar temji talibana

Óli Tynes skrifar
Er hægt að semja við þessa menn?
Er hægt að semja við þessa menn?

Það voru Pakistanar sem sköpuðu þessa ófreskju á sínum tima. Þeir þjálfuðu og vopnuðu talibana á níunda áratugnum. Þeir báru á þá fé og létu þeim meira að segja í té skriðdreka og stórskotalið.

Margir leiðtoga talibana eiga líka heimili og fjölskyldur í Pakistan. Pakistanar segjast glaðir muni hjálpa til við samninga, en hafna því að þeir séu í einhverju stöðugu sambandi við uppreisnarmennina.

Bandaríkjamenn eru ekki sérlega hrifnir af því að vingast við leiðtoga talibana, sem þeir telja vera í nánu sambandi við al-Kaida.

Þeir vilja frekar reyna að lokka almenna liðsmenn frá samtökunum með því að bjóða þeim sakaruppgjöf, peninga og land til ábúðar.

Ríkisstjórn Afganistans hefur raunar verið að reyna að fara þá leið en það hefur ekki skilað miklum árangri ennþá, þar sem ekki eru miklir peningar í ríkiskassanum.

Á fundi 45 ríkja um stöðuna í Afganistan í síðustu viku fór Hamid Karzai forseti landsins framá að Vesturlönd fjármögnuðu þetta verkefni.

Margar þjóðir tóku því vel, til dæmis sagði utanríkisráðherra Þýskalands að það væri vænlega til árangurs að kaupa talibana en að reyna að drepa þá alla.

Ef hinsvegar Pakistönum verður eitthvað ágengt við að semja við forystu talibana má telja líklegt að Bandaríkjamenn beygi sig undir það. Allt er betra en núverandi ástand.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×