Innlent

Eyjafjallajökull: Nýr fasi í gosinu

Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli fór í um tíu kílómetra hæð yfir stöðinn um klukkan sex í gærkvöldi og hélst í þeirri hæð fram til klukkan hálfátta. Þá lækkaði hann á ný og hefur verið stöðugur í um sex kílómetra hæð. Gunnar Guðjónsson á Veðurstofu Íslands segir að töluverð gjóskuvirkni virðist vera á svæðinu og mökkurinn sýnist vera nokkuð dökkur.

Vindáttin blæs mekkinum að mestu til suðaustur og segir Gunnar að það gæti haft áhrif á flugsamgöngur á Írlandi og í vesturhluta Englands. Á annan tug skjálfta mældust í jöklinum í gær en þeir voru allir undir tveimur stigum og mældust þeir síðustu um klukkan tvö í nótt.

Að sögn Gunnars er greinilega kominn nýr fasi í gosið. Hann bendir á að gosóróinn hafi minnkað mikið síðustu daga og að gosið sé orðið öskugos að nýju. Í Gígjökli virðist enda vera lítil bráðnun og svo virðist sem mesta orkan fari nú í að koma öskunni upp í andrúmsloftið.

Hvað sem því líður er eldgosið í það minnsta enn í fullum gangi og sjást lítil merki um að á því verði lát á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×