Lífið

Þeir sem hafa ekki áhuga á HM verða að flytja upp í bústað

Sannkölluð veisla verður fyrir þá sem hafa áhuga á knattspyrnu og HM í þessari vinsælustu íþrótt heims. Töluverð riðlun verður í dagskrá Sjónvarpsins vegna mótsins, Kastljósið fer í frí og snýr ekki aftur fyrr en 25. júlí og sjónvarpsfréttir verða klukkan sex í stað sjö á kvöldin.
Sannkölluð veisla verður fyrir þá sem hafa áhuga á knattspyrnu og HM í þessari vinsælustu íþrótt heims. Töluverð riðlun verður í dagskrá Sjónvarpsins vegna mótsins, Kastljósið fer í frí og snýr ekki aftur fyrr en 25. júlí og sjónvarpsfréttir verða klukkan sex í stað sjö á kvöldin.

Þeir sem hafa engan áhuga á knattspyrnu, heimsmeistaramóti og frösum á borð við „glæsileg tilþrif" og „sjáið þetta!" ættu að flytja upp í sjónvarpslausan sumarbústað í júní. Því HM í Suður-Afríku mun nánast einoka sjónvarpsdagskrá RÚV í heilan mánuð.

Sjónvarpið og Stöð 2 Sport 2 munu sýna beint frá öllum leikjum heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem hefst formlega 11. júní. Stöð 2 Sport 2 sýnir alla leikina beint sem hefjast klukkan 11.30 og svo deila sjónvarpsstöðvarnar síðustu leikjunum í riðlakeppninni en þá er leikið á sama tíma. RÚV mun síðan sjá alfarið um að sýna beint frá útsláttarkeppninni og úrslitaleiknum sjálfum sem háður verður 11. júlí.

Alls verða sextíu og fjórir leikir í beinni útsendingu á 25 leikdögum. Búast má við töluverðri röskun á dagskrá RÚV sem á sjónvarpsréttinn að HM. Sigmar Guðmundsson, ritstjóri Kastljóssins, upplýsir þannig að Kastljósið fari í frí um leið og HM hefst og snúi ekki aftur fyrr en 25. júlí, eða tveimur vikum eftir að HM lýkur.

Kristín Harpa Hálfdanardóttir, yfirmaður íþróttadeildar RÚV, segir leikjatímann varla hafa getað verið betri. „Sjónvarpsfréttir verða klukkan sex í stað sjö og hefðbundin dagskrá hefst klukkan níu," segir Kristín en Sjónvarpið mun sýna beint frá leikjunum sem hefjast klukkan hálf þrjú og hálf sjö. Sjónvarpsfréttirnar verða því einnig í styttra lagi.

Þorsteinn J. Vilhjálmsson verður áberandi í HM-umfjöllun sjónvarpsins. Hann verður með sérstakan upphitunarþátt korter yfir fimm á daginn þar sem farið verður ítarlega yfir hádegisleikinn og hann mætir svo aftur til leiks þegar síðasta viðureign dagsins er afstaðin. HM-æðinu lýkur því klukkan níu á kvöldin eftir að hafa staðið yfir, nánast samfleytt, frá því klukkan tvö. Sjónvarpið hefur verið að hita upp fyrir HM með kynningum á liðunum sem taka þátt en 18. maí hefst svo sérstök upphitun.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.