Erlent

Um 140 milljarðar króna í mútur

Á kaffihúsi í Aþenu Mútugreiðslur eru partur af daglegu lífi margra í Grikklandi.
nordicphtos/afp
Á kaffihúsi í Aþenu Mútugreiðslur eru partur af daglegu lífi margra í Grikklandi. nordicphtos/afp

Spilling er enn útbreidd í Grikklandi, þrátt fyrir nærri þriggja áratuga aðild þess að Evrópu­sambandinu. Samtökin Transparency International, sem fylgjast með spillingu í ríkjum heims, halda því fram að almenningur í Grikklandi hafi árið 2009 greitt nærri 800 milljónir evra í mútur, eða hátt í 140 milljarða íslenskra króna.

Samkvæmt upplýsingum samtakanna viðurkenna þrettán prósent aðspurðra að hafa þurft að greiða mútur. Að meðaltali hafa þeir þurft að verja 234 þúsundum króna í þennan útgjaldalið.

Múturnar eru greiddar í margvíslegum tilgangi, en oftast til þess að flýta fyrir þjónustu. Til dæmis greiða menn dágóða upphæð til þess að fá ökuskírteini fyrr, komast fyrr að á sjúkrahúsi eða komast hjá því að skatturinn geri veður út af röngum upplýsingum á skattframtali. Um það bil sextíu prósent mútanna fara til starfsfólks opinberra stofnana, en um 40 prósent til einkafyrirtækja.

Inni í þessum tölum eru þó eingöngu mútugreiðslur einstaklinga, en ekki þær risastóru upphæðir sem fullvíst þykir að fari á milli einkafyrirtækja og opinberra stofnana til að liðka fyrir margvíslegum samskiptum þeirra á milli.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×