Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan Hafnarborg á mánudaginn þegar ný bæjarstjórn kemur saman. Ástæðan er ráðning Lúðvíks Geirssonar, sem bæjarstjóra en hann datt út úr bæjarstjórn í kosningunum þar sem hann sat í sjötta sæti á lista Samfylkingarinnar.
Hann mun gegna starfi bæjarstjórans næstu tvö árin samkvæmt yfirlýsingu frá flokkunum.
Forsvarsmaður mótmælanna er Axel Einar Guðnason en meðal annars hefur Facebook-síða verið stofnuð til þess að mótmæla ráðningunni. Þremur dögum eftir að hún var stofnuð hafa 800 manns skráð sig.
Í yfirlýsingunni frá Axel segir að mótmælin hefjist klukkan tvö á mánudaginn.