Heildarfjölgun umsókna í Háskóla Íslands næsta haust er rösklega 18%. Mesta aðsóknin er í heilbrigðisvísindin.
Innan einstakra deilda Háskólans er mesta fjölgunin í Læknadeildina, eða 80%, en á fimmta hundrað sóttu um að þreyta inntökupróf í Læknadeild.
Mest fjölgun í einstökum námsgreinum er í jarðeðlisfræði, kínversku, frönsku, efnaverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, lífefnafræði, alþjóðlegu námi í menntunarfræði, matvælafræði, tannsmíðum og geislafræði þar sem fjölgun umsókna er um og yfir 100 prósent.
Af öðrum fræðasviðum má nefna að umsóknir um grunnnám á Félagsvísindasviði eru 1.342. Þá sóttu 869 um á Hugvísindasviði, 858 á Verkfræði- og náttúruvísindasviði og 698 sækja um grunnnám við Menntavísindasvið.
Alls sækja 5.351 um grunnnám í skólanum sem er 12 prósent aukning á milli ára.