Reykvíska hljómsveitin Nóra gefur út sína fyrstu plötu, Er einhver að hlusta?, í dag. Þar er að finna tíu lög sungin á íslensku, þar á meðal lagið Sjónskekkja sem sat á vinsældalista Rásar 2 í fimm vikur fyrir áramót. Nýjasta lag sveitarinnar í útvarpi nefnist Bólheiðafall.
Systkinin Egill og Auður Viðarsbörn syngja saman á plötunni.
Aðrir meðlimir eru Frank Arthur Blöndahl Cassata, Hrafn Fritzson og Bragi Páll Sigurðarson. Þau hyggjast fylgja plötunni vel eftir í sumar með tónleikahaldi og uppákomum, bæði í borginni og víðar um land.
Hægt er að hlusta á þrjú lög af plötunni á síðunni www.facebook.com/noraband. Útgáfuhóf verður haldið á Íslenska barnum við Austurvöll í dag klukkan 17.
