Erlent

Paisley dregur sig í hlé

Óli Tynes skrifar
Ian Paisley.
Ian Paisley.

Eldklerkurinn og stjórnmálaleiðtoginn Ian Paisley ætlar að draga sig í hlé frá þingmennsku í næstu þingkosningum. Hann hefur setið á breska þinginu fyrir Norður-Írland í 40 ár.

Paisley er nú 83 ára gamall. Hann er harðlínumaður sem barðist svo ákaft gegn kaþólska minnihlutanum á Norður-Írlandi að hann stofnaði sérstaka kirkju þeim til höfuðs.

Kaþólikkar börðust fyrir aðskilnaði frá Bretlandi en Paisley stýrði liði sambandssinna sem vildu viðhalda tengslunum.

Árið 2007 sneri hann gersamlega við blaðinu þegar hann stofnaði ríkisstjórn með erkióvini sínum Martin McGuiness fyrrverandi leiðtoga hryðjuverkasamtakanna IRA, Írska lýðveldishersins.

Kosningarnar verða væntanlega haldnar í maí eða júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×