Lífið

Talsmaður Bíladaga ósáttur við neikvæða umfjöllun

Björgvin er ósáttur að það vanti alla jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum um Bíladaga.
Björgvin er ósáttur að það vanti alla jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum um Bíladaga.

„Miðað við allan þann fjölda sem var saman kominn þykir mér þetta hafa farið vel fram. Þar af leiðandi þykir mér að það megi líka benda á jákvæðu hliðina,“ segir Björgvin Ólafsson, talsmaður Bíladaga.

Björgvin er í stjórn Bílaklúbbs Akureyrar, sem sér um hina árlegu Bíladaga á Akureyri. Hátíðin fór fram um helgina og Björgvin er ósáttur við umfjöllun um hátíðina sem hann segir hafa verið afar neikvæða. Hann gagnrýnir einnig að fótboltaleikur í 1. deild hafi fengið meiri umfjöllun en fjölsóttar bílakeppnir.

„Það horfðu um 7.500 manns á götuspyrnuna og um 5.000 manns horfðu á Burn out-keppnina á Akureyrarvelli,“ segir hann. „Þess má geta að rétt áður voru um 200 manns þar á leik KA - Fjölnis. Það er því augljóst að það er mikið gert upp á milli áhugamála í fjölmiðlum.“

Björgvin segir bílaklúbburinn vera að koma sér upp aðstöðu fyrir ofan bæinn. Keppnir í miðbæ Akureyrar heyri því sögunni til.

Tíðar fréttir af áfengisneyslu, ólátum og glæfraakstri bárust frá Akureyri um helgina, en Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir að lögreglan hafi í raun ekkert nema ágætt að segja um Bíladaga. Miðað við fjöldann sem mætti hafi hátíðin farið ágætlega fram.

„Það er í raun ekki hátíðin sem slík sem fer fyrir brjóstið á heimamönnum heldur er það framkoma ökumanna á götum bæjarins,“ segir Daníel. „Þeir eru í kappakstri og spyrnu í almennri umferð. Auk þess sem þeir spóla og mynda hávaða á bílunum sínum langt fram eftir nóttu.“

Daníel segir að ólæti og ölvun fylgi öllum hátíðum. Hann telur það miður6 að hátíðin fái slæma umfjöllun vegna þeirra fáu sem eru að skemmta sér á næturnar með tilheyrandi hávaða og þeirra sem haga sér ekki almennilega í umferðinni. „Það er bara þannig að ef fólk setur upp hátíðir þá er þetta gjaldið sem fylgir,“ segir hann.

„Það er sama vandamál við allar hátíðir. Það er alltaf lítill hópur sem eyðileggur allt það jákvæða sem hátíðirnar hafa í för með sér.“ linda@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.