Skoðun

Þrettán ára unglingar fá ekki vinnu í Vinnuskóla Reykjavíkur

Fanný Gunnarsdóttir skrifar

Í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2011 er lagt til að Vinnuskóli Reykjavíkur hætti að bjóða nemendum sem ljúka 8. bekk ( 13 ára ) vinnu og vinnuvikum eldri unglinga fækki.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það kostar mikið að halda úti Vinnuskóla Reykjavíkur en með vinnuframlagi unglinganna er á stuttum tíma unnt að að hreinsa og koma görðum og grænum svæðum borgarinnar í sumarlegan búning. Í stefnu Vinnuskólans stendur að vinna nemenda sé þýðingamikil ekki aðeins innan byggðarinnar í borginni heldur einnig við uppgræðslu og vinnu á óbyggðum svæðum innan borgarlandsins.

Nú finnst stjórnendum borgarinnar eðlilegt að ná fram örlitlum hluta af þeim niðurskurði sem Umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar er ætlað að ná fram með því að skera niður fé til Vinnuskólans.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki hafi verið skoðuð sú leið að taka það fé sem ætlað er til skólans og deila því niður á árganga? Hvort skoðað var að stytta vinnuvikuna um einn dag hjá öllum? Var leitað allra leiða til að halda áfram með vinnu fyrir 13 ára krakka? Var skoðuð sú leið að taka upp samstarf við fyrirtæki í Reykjavík hvað varðar elstu krakkana eða þá sem eru að ljúka 10. bekk - eitthvað í átt við Atvinnutengt nám? Má ekki hugsa sér fjölbreyttara samstarf við grenndarsamfélagið með aðkomu einstaklinga og félagasamtaka sem taka þá á einhvern hátt þá í kostnaði? Má ekki hugsa sér að Vinnuskólinn skipuleggi sambland af launaðri vinnu og sjálfboðastarfi? Með því væri hægt að tryggja viðveru og uppbyggjandi viðfangsefni fyrir unglingana með lægri kostnaði en áður.

Við núverandi aðstæður þarf að hugsa allt upp á nýtt og leita óhefðbundinna leiða. Mér finnst allt betra en að skera af yngstu krakkana. Það er vitað að það breytist margt í lífi unglinga sumarið eftir 8. bekk. Að hafa ekkert við að vera dag eftir dag býður hættunni heim. Borgin er að kosta miklu til þegar kemur að ýmsu er tengist forvörnum, líðan og velferð barna og unglinga og ég hræðist að það komi til með að fjölga í hópi þeirra sem þurfa aðstoðar við ef enga vinnu er að fá og aðgerðarleysi blasir við heilt sumar.

Mér finnst einsýnt að nú verði foreldrar í auknum mæli að greiða fyrir námskeið t.d. hjá íþróttafélögum eða öðrum þeim sem bjóða upp á námskeið fyrir unglinga. Hafa fjölskyldurnar í borginni borð fyrir báru? Því geri ég ráð fyrir því að ÍTR fái aukið fjármagn til að mæta breyttum forsendum.

Í lauslegri könnun sem nemendur mínir gerðu í tengslum við vinnu kom í ljós að Vinnuskóli Reykjavíkur er nú í dag sá vinnustaður sem langflestir unglingar í 9. bekk sækja til sína fyrstu vinnureynslu.

Það er eðlilegt að álykta að þar sem við búum við viðvarandi atvinnuleysi þrengist enn um vinnutilboð til unglinga á grunnskólaaldri og því mikilvægt að Reykjavíkurborg kom að því að veita unglingum borgarinnar tækifæri til að feta sín fyrstu skref í launaðri vinnu. Að mínu mati er tilgangurinn með Vinnuskóla Reykjavíkur margþættur. Það er eðlilegt að í Vinnuskólanum eigi unglingar að fá þjálfun og reynslu við að vinna störf sem hæfa aldri þeirra og þroska, verkstjórn þarf að vera góð og sanngjörn og sú fræðsla sem krakkarnir fá þarf m.a. að snúa að réttindum og skyldum á vinnumarkaði.

Vinnan og fræðslan þurfa að hafa það markmið að styrkja sjálfsmynd unglinganna, byggja undir jákvæðan lífsstíl og fræða þá um umhverfið og umhverfismál. Auðvitað er á hverjum tíma holt og nauðsynlegt að skoða starfsemi eins og Vinnuskólans en þá með það að markmiði að gera vinnuna og fræðsluna enn markvissari en ekki skera niður þar sem síst skyldi.






Skoðun

Sjá meira


×