Skoðun

Til hvers er þá setið?

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir skrifar
Nýlega kom fram að Ross Beaty, framkvæmdastjóri Magma Energy, vildi efna til samstarfs við Hrunamannahrepp um orkurannsóknir á svæðinu frá Flúðum upp í Kerlingarfjöll með nýtingu jarðvarma í huga. Á svipuðum tíma bárust fréttir af áformum um að Suðurorku ehf. yrði veitt rannsóknarleyfi á vatnasviðum Skaftár og Tungufljóts í Skaftártungu. Suðurorka er að stórum hluta í eigu HS orku sem aftur er komið undir handarjaðar fyrrnefnds Ross Beaty. Hann lætur sér ekki nægja að horfa upp til Kerlingarfjallanna heldur má sjá á veraldarvefnum að hann lætur til sín taka í Suður-Ameríku, Kína og eflaust víðar. Og fyrst Kína er nefnt þá fór það eflaust ekki framhjá neinum hve mikinn áhuga Kínverjar sýndu orkuauðlindum landsins í sumar.

Á meðal fjárfesta hafi aldrei verið eins mikill áhugi á því og nú að koma ár sinni fyrir borð í vatns-orkubúskap þjóðanna. Skýringin er augljós. Þarna eru mjólkurkýr framtíðarinnar, verðmæti sem allir braskarar ásælast. Þess vegna skilgreina sumar Evrópuþjóðir orkuiðnaðinn sem öryggisþátt og vilja girða fyrir utanaðkomandi fjárfestingar. Það var yfir slíka girðingu sem Ross Beaty vildi klifra þegar hann þóttist vera heimilisfastur í Svíþjóð, og þar með á hinu evrópska efnahagssvæði en ekki í Kanada með fyrirtæki sitt. M.a. vegna þessarar sviksemi geta íslensk stjórnvöld stoppað sókn hans inn í auðlindir Íslands.

Það er svo annað mál að sænsk skúffa þarf ekki endilega að vera verri en kanadísk eða íslensk skúffa, eins og dæmin sanna. Munurinn á innlendum og erlendum fjárfestum er reyndar sá að í síðara tilvikinu streymir allur gróði beinustu leið úr landi. Að benda á slíkt snýst ekki um meintan þjóðernisrembing heldur hvert fjármagn af auðlindum landsins berst. En þótt það kunni á þennan tiltekna hátt að vera skárra að hagnaðurinn staðnæmist í íslenskum fjárfestingarvasa hljóta almannahagsmunir að snúast um annað og mun veigameira: Að auðlindir Íslands lendi ekki ofan í prívatvösum, sama hverra. Þetta er grundvallarmál. Auðlindirnar á að nýta í þágu samfélagsins en ekki örfárra risasamsteypa eða bisnessmanna. Af slíku hlýtur að vera komið nóg nema fólk vilji að 2007 endurtaki sig í sífellu. Ríkisstjórnin verður að koma í veg fyrir þessa áframhaldandi og grafalvarlegu þróun og það strax enda tíminn naumur. Ef ekkert er að gert til hvers er þá setið?




Skoðun

Sjá meira


×