Erlent

Frekar flókin nauðgun

Óli Tynes skrifar
Fólkið hittist í Jerúsalem.
Fólkið hittist í Jerúsalem.

Þrítugur Arabi hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi í Jerúsalem fyrir nauðgun. Samfarirnar voru þó með fullu samþykki konunnar.

Málið er að fólkið hittist úti á lífinu í Jerúsalem. Konan var Gyðingur  og maðurinn sagðist sjálfur vera Gyðingur og piparsveinn sem væri að leita eftir alvöru sambandi.

Það fór vel á með þeim og þau fóru í hús skammt frá þar sem þau höfðu samfarir. Síðar komst konan að því að maðurinn var arabiskur og þá lagði hún fram nauðgunarkæru.

Í byrjun hljóðaði kæran upp á nauðgun og árás en var síðar breytt í nauðgun með blekkingum.

Dómarinn í málinu sagði augljóst að konan hefði ekki átt vingott við manninn ef hún hefði vitað um uppruna hans. Því flokkaðist bólferðin undir nauðgun.

Gideon Levy, frjálslyndur ísraelskur fjölmiðlamaður sagðist hafa eina spurningu fyrir dómarann; „Ef maðurinn hefði verið Gyðingur, þóst vera múslimi og haft mök við múslimakonu. Hefði hann þá verið dæmdur fyrir nauðgun?"

Og Gideon svaraði sjálfur spurningunni; „Auðvitað ekki."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×