Skoðun

Gildi kosninganna: upplýsing eða auðvald?

Svanur Sigurbjörnsson skrifar

Það var ljóst frá upphafi kosningabaráttunnar að það hámark sem Alþingi setti með lögum um kostnað frambjóðenda var allt of hár. Formaður stjórnlaganefndar, Guðrún Pétursdóttir, sú virðulega kona, sem bar hitann af undirbúningi kosninganna, lýsti því yfir að 2 milljónir króna væri allt of hátt þak og bað frambjóðendur um að vera hófsama.

Undir það var tekið af langflestum frambjóðendum og margir tóku það svo alvarlega að þeir lýstu yfir 0 kr. í kostnaðaráætlun. Í góðri von um að opinberir miðlar myndu standa sig vel í að kynna framboð allra birtist fullt af fólki sem á enga sjóði til að setja í kosningaauglýsingar og bauð sig fram. Víða var hvatt til þess að ekki yrði auglýst í blöðum eða ljósvakamiðlum vegna mikils kostnaðar við slíkt. Efnalitlir frambjóðendur ættu að njóta þess að farið væri eftir leikreglum jafnræðis, jafnvel þó að sumir þátttakendur gætu vel pungað út hundruðum þúsunda.

Þetta snýst því um að sýna aga og taumhald; eiginleikar sem urðu að löstum í góðærinu, en eru óðum að uppgötvast á ný sem dyggðir. Almennt held ég að fólk vilji að fulltrúar þjóðarinnar kunni að halda aftur af sér og virða mörk. Tækifærissinnar grípa alltaf allt af því að það er hægt og er fyrir framan þá. Jafnræði og siðferði eiga ekki við um tækifærissinnana þegar þeirra hagsmunir eru á vogarskálinni. Þessar dyggðir eru bara á pappír hjá þeim.

Það er ljóst að nokkrir frambjóðendur eru komnir langt út fyrir hinn siðferðislega tíðaranda þjóðfélagsins sem sveif yfir vötnum í byrjun kosninganna. Hin fallega hugsun um að gera þessar kosningar ekki að milljónakapphlaupi í anda Alþingiskosninga síðustu ára, hefur verið eyðilögð af þessum frambjóðendum. Þeir treysta á að geta keypt sér athygli og með glansmynd skapað sér einhverja ímynd trausts sem fólk taki jákvætt í. Kjósandanum er svo leiðbeint eins og barnaskólabarni hvernig hann/hún eigi að setja númer viðkomandi frambjóðanda í fyrstu 4 reitina á kjörseðlinum.

Hinir frambjóðendurnir sem eyða nær engu eða að hámarki nokkrum tugum þúsunda í hógværar auglýsingar verða að treysta á "upplýsinguna", þ.e. að flestir kjósendur séu duglegir að myndar sér sjálfstæðar skoðanir á þeim og leggi á sig nokkra vinnu við að fara í gegnum stefnumálin, skoða vefsvæði frambjóðenda, hlusta á upptöku RÚV og spyrjast fyrir um viðkomandi. Hinn upplýsti kjósandi ætti að geta fundið sér frambjóðendur til að kjósa, ef að hann/hún hefur aðgengi að góðum upplýsingum. Hinn upplýsti kjósandi kýs heldur ekki út í loftið einhvern sem lítur vel út á mynd eða lætur mest á sér bera.

Munu úrslit kosninganna endurspegla góð vinnubrögð kjósenda (og góða opinbera kynningu á frambjóðendunum) eða mikla auglýsingu efnuðustu frambjóðendanna? Verður kosningin lýðræðisleg í anda upplýsingar eða smalræðisleg í krafti auðvalds?

Þekking eða poppúlismi?

Okkar er valið.

PS: Á http://svanursig.is má sjá þann kostnað sem ég legg í framboðið. Ef ég ætla að setja ákvæði um gegnsæi í stjórnsýslunni verð ég að iðka það sjálfur.




Skoðun

Sjá meira


×