Handbolti

Björgvin Páll: Samheldnin mikil í hópnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Björgvin Páll Gústavsson sést hér verja frá Austurríkismönnum.
Björgvin Páll Gústavsson sést hér verja frá Austurríkismönnum. Mynd/Leena Manhart

Björgvin Páll Gústavsson segir samheldnin sem ríkir í íslenska landsliðinu muni fleyta því langt. Hann segir enn fremur að liðið sé vel í stakk búið til að takast á við persónuleg áföll sem koma upp í leikjum liðsins.

„Þetta er það góður hópur sem hefur að geyma það sterka einstaklinga að menn styðja hverja aðra," sagði Björgvin við Vísi í dag.

Hreiðar Guðmundsson, félagi Björgvins í landsliðinu, datt þegar Austurríki skoraði jöfnunarmark sitt í blálok leiksins gegn Íslandi í gær.

„Ég hef engar áhyggjur af Hreiðari. Hann er sterkur strákur og er alveg með þetta. Hann verður alltaf klár í slaginn. Það er erfitt að lenda í svona löguðu og óheppnin hjá honum var alger. Það eru ekki alltaf jólin í boltanum."

Björgvin segir margt ágætt við markvörslu hans og Hreiðars á mótinu til þessa en að margt sé hægt að bæta.

„Ég er ánægður með sumt en ekki nógu sáttur heilt yfir. En það er eitthvað sem við getum unnið í. Það þarf að bæta sambandið á milli markvarðar og varnar og það hefur verið talsvert óöryggi í þessu hjá okkur."

„Þetta small vel hjá okkur í fyrri hálfleiknum gegn Serbíu og ég held að það sé bara tímaspursmál hvenær það gerist aftur. Við fáum næst tækifæri gegn Dönum til þess."

„Getan og hæfileikarnir eru til staðar hjá þessu liði. En þetta er stutt mót og það er hægt að klúðra öllu á fáum mínútum. Nú kemur stóra verkefnið og við vissum alltaf að leikurinn gegn Dönum myndi skipta sköpum. Nú sjáum við úr hverju við erum gerðir."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×