Innlent

Kvenfélög vilja verja orlofsfé húsmæðra

Rekstur á heimilum er enn að mestu leyti í höndum kvenna og þær hafa lægri laun, segir forseti Kvenfélagasambands Íslands sem kveður alls ekki rétt að jafnrétti sé náð og finnst að húsmæður eigi enn skilið að fá húsmæðraorlof.
Fréttablaðið/Anton
Rekstur á heimilum er enn að mestu leyti í höndum kvenna og þær hafa lægri laun, segir forseti Kvenfélagasambands Íslands sem kveður alls ekki rétt að jafnrétti sé náð og finnst að húsmæður eigi enn skilið að fá húsmæðraorlof. Fréttablaðið/Anton

Sigurlaug Viborg, forseti Kvenfélagasambands Íslands, segir sambandið leggjast gegn frumvarpi um afnám húsmæðraorlofs.

„Þetta er sérstaklega mikils virði fyrir fullorðnar konur sem ekki eru með neina digra sjóði á bak við sig. Félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur því sumar konur hafa ekki aðstöðu til að ferðast nema í svona hóp,“ segir Sigurlaug.

Að upphaflegu frumkvæði bæjarstjórnar Hveragerðis ályktaði Samband sveitarfélaga um að afnema ætti húsmæðraorlof og liggur nú fyrir á Alþingi frumvarp þessa efnis. Eins og lögin eru í dag greiðir hvert sveitarfélag eitt hundrað krónur á hvern íbúa til orlofsnefnda í sínu héraði. Þannig á Hveragerði að greiða um 210 þúsund krónur á þessu ári. Sveitarfélögin í heild greiða ríflega 30 milljónir á ári.

„Þessar greiðslur frá sveitarfélögunum eru ekki það háar að það skipti öllu máli fyrir þau en skipta máli fyrir konurnar sem fá örlitla niðurgreiðslu á orlofsferðir,“ segir Sigurlaug.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir hins vegar að húsmæðraorlofið sé arfur fortíðar og frá þeim tíma þegar fólk hafi yfirleitt ekki farið í ferðalög. Furðuleg sé að skikka sveitarfélög til að borga í orlofið.

„Bæjarstjórnin hér er einhuga í því að lög um húsmæðraorlof séu algjör tímaskekkja, út frá jafnréttis- og jafnræðissjónarmiðum. Með sama hætti mætti segja að það ætti að vera orlof fyrir námsmenn, þeir eru líka blönk stétt,“ segir Aldís.

Sigurlaug Viborg segir Kvenfélagasambandið skila Alþingi umsögn um frumvarpið í júní. „Mér skilst að þetta frumvarp byggi á því að nú sé jafnrétti náð og því sé ástæða til að fella þetta niður. Ég er algjörlega ósammála því vegna þess að það er svo fjarri því að jafnrétti sé náð. Konur eru ennþá með miklu lægri laun en karlar og hafa þar af leiðandi miklu minni lífeyrissjóði og annað upp á að hlaupa í sambandi við orlof,“ segir Sigurlaug og bætir við að rekstur á heimilum sé ennþá að mestu í höndum kvenna.

„Hver hugsar um matinn á hátíðum til þess að öll fjölskyldan geti haft það yndislegt? Það eru náttúrulega yfirleitt húsmæðurnar. Þær eiga það fyllilega skilið að húsmæðraorlofið sé ekki fellt niður.“

„Með sama hætti mætti segja að það ætti að vera orlof fyrir námsmenn, þeir eru líka blönk stétt.“

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði.gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×