Erlent

Barn lifði í tvo daga eftir fóstureyðingu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Prestur mótmælir fóstureyðingum. Mynd/ AFP.
Prestur mótmælir fóstureyðingum. Mynd/ AFP.
Deilur um fóstureyðingar hafa sprottið upp að nýju á Ítalíu eftir að mistök voru gerð við slíka aðgerð á dögunum.

Kona gekkst undir fóstureyðingu á laugardaginn, í bænum Rossano á suðurhluta Ítalíu. Þar með gekk hún út frá því að hið 22 vikna gamla fóstur væri látið. Það sama héldu læknarnir sem gerðu fóstureyðinguna og skildu þeir því fóstrið eftir á spítalanum. Daginn eftir uppgötvaði prestur sem hugðist biðja fyrir fóstrinu að það dró ennþá andann. Fóstrið var vafið inn í lak og naflastrengurinn hafði ekki verið klipptur af. Þá voru liðnir um það bil 20 klukkustundir frá því að aðgerðin var gerð.

Presturinn hafði strax samband við starfsfólk spítalans sem fór umsvifalaust með fóstrið á sérstaka deild fyrir fyrirbura. Þar lést barnið á mánudagsmorgun, næstum tveimur dögum eftir að það var fjarlægt úr móðurkviði, eftir því sem fram kemur í Daily Telegraph.

Samkvæmt ítölskum lögum er læknum skylt að sjá til þess að börn lifi, ef fóstureyðing mislukkast með þessum hætti. Lögreglan á Ítalíu rannsakar því málið sem kom upp um helgina sem manndráp. Ítölsk stjórnvöld hafa líka ákveðið að rannsaka hvaða þátt starfsfólk spítalans lék í atburðarásinni.

Málið hefur valdið töluverðum deilum á Ítalíu, ekki síst vegna þess að þetta er í annað sinn á fáeinum árum að fóstur lifir í nokkra daga eftir að það er fjarlægt úr móðurkviði. Síðast gerðist það árið 2007, en þá lifði 480 gramma drengur í þrjá daga eftir fóstureyðingu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×