Skoðun

Ærandi þögn

Hjálparstofnanir eru komnar í sumarfrí og á meðan verður ekki afgreiddur matur til fjölda fátækra sem staðið hafa í biðröðum til að fæða sig og sína.

Félagsmálaráðherra segir að þetta sé á ábyrgð sveitarfélaga. Borgarstjóri er enn að kynna sér málið. Formaður velferðarráðs sagði að fátækir gætu sleppt því að greiða reikningana sína á meðan á þessu stendur og verkalýðshreyfingin sem áður talaði máli fátækra heldur sig til hlés.

Á meðan aðrir búa við allsnægtir er fátæktin að aukast og fátækum að fjölga og flest er þeim mótdrægt. Kaupmáttur launa hefur lækkað um allt að fjórðung á tveimur árum, fjárhagsaðstoðin hefur lækkað samanborið við lægstu laun, atvinnuleysisbætur hafa ekki hækkað í eitt og hálft ár og húsaleigubætur hafa staðið í stað í 2 ár á meðan húsaleiga Félagsbústaða, sem flestir þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar greiða, hækkar samkvæmt vísitölu. Sömu sögu eða verri má segja af elli- og örorkulífeyrisþegum. Þeir fátæku verða fátækari.

Félagsmálaráðherra hefur kallað fulltrúa sveitarfélaga til samráðs um málið seinnipart vikunnar. Hann skal ekki gleyma því að stærstur hluti þeirra sem beðið hafa í röðum við hjálparstofnanir er á vegum hans ráðuneytis. Vilji ráðherrann bregðast við vanda fólks sem leitar til hjálparstofnana á hann að leggja sitt af mörkum til að leysa þann bráðavanda sem við blasir og leggja jafnframt til við við ríkisstjórn og á Alþingi að bætur verði hækkaðar.

Þetta firrir sveitarfélögin þó ekki ábyrgð því eins og félagsmálaráðherra hefur bent á er framfærsluskyldan þeirra. Þeir sem njóta fjárhagsaðstoðar sveitarfélaganna, lögum samkvæmt eru þeir sem minnst hafa á milli handanna og væntanlega þeir sem mestar áhyggjur hafa af sumarlokun hjálparstofnana. Þessu fólki eiga sveitarfélögin að veita styrk nú þegar.

Það sem ærir þó óstöðugan er afskiptaleysi Alþýðusambandsins. Fátækir áttu sér áður málsvara í verkalýðshreyfingunni. Fátækt fólk stofnaði verkalýðsfélögin og kom á réttlátara samfélagi. Þögn ASÍ er ærandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×