Lífið

Læðurnar sækja í Jóhann Pál

Jóhann Páll með læðuna sem Randver virðist líta hornauga. Jóhann leitar nú að eiganda hennar.
Fréttablaðið/Stefán
Jóhann Páll með læðuna sem Randver virðist líta hornauga. Jóhann leitar nú að eiganda hennar. Fréttablaðið/Stefán

„Ég hélt auðvitað að þetta væri vegna kvenhylli minnar," segir Jóhann Páll Valdimarsson, bókaútgefandi hjá Forlaginu.

Jóhann er annálaður kattamaður, kettirnir hans Breki og Randver eru í lykilstöðum í fyrirtækinu, Breki er til að mynda endurskoðandi en Jóhann tekur skýrt fram að hann hafi aldrei stigið loppu inn fyrir dyr Pricewater House Coopers. Kattaástin virðist hafa kvisast út meðal læða á höfuðborgarsvæðinu því tvær slíkar hafa, með skömmu millibili, gert sig heimakomnar í húsakynnum Forlagsins við Bræðraborgarstíg.

„Við höfðum mikið fyrir því að koma fyrri læðunni til eiganda síns og auglýstum meðal annars á Barnalandsvefnum. Einn starfsmaður hjá mér fór alltaf með hana heim til sín og það var grátur og gnístran tanna þegar eigandinn kom og sótti kisuna."

Og nú hyggst Jóhann bregðast skjótt við og auglýsir hér með eftir eiganda læðunnar á myndinni til að koma í veg fyrir að slík tryggðasambönd, milli starfsmanns og kattar, endurtaki sig. Læðan er þó í góðu yfirlæti hjá Jóhanni og Guðrúnu konu hans, hefur farið heim með forleggjaranum í hádeginu og kúrt hjá honum. Randver og Breki hafa að sögn Jóhanns tekið læðunni ágætlega þótt þeir séu báðir tveir frekir á athygli og bítist um hana daglega.

Jóhann segir kattaáhugann sinn arfgengan, faðir hans hafi haft mikið dálæti á köttum. „Ég hef velt þessu fyrir mér, hvað ég á auðvelt með að sýna köttum og börnum ótakmarkaða hlýju. Ætli ég vilji ekki vernda það sem lífið hefur ekki náð að spilla."- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.