Erlent

Rauði Kross Íslands sendir fé til Chile

Rauði kross Íslands hefur ákveðið að senda þrjár milljónir króna til neyðaraðgerða í kjölfar jarðskjálftans í Chile nú um helgina. Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar veitt 360 milljónum króna úr neyðarsjóði sínum og Rauði krossinn í Chile hefur hrint af stað fjáröflun til aðstoðar fórnarlömbum hamfaranna.

Hægt er að styðja hjálparstarfið í Chile með því að leggja inn á reikning Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 555, kt. 530269-2649, eða greiða með kreditkorti.

Rauði krossinn í Chile hefur unnið sleitulaust frá því jarðskjálftinn reið yfir að björgun úr rústum, aðhlynningu slasaðra og dreifingu hjálpargagna. Rauði krossinn hefur gríðarlega mikla reynslu af viðbrögðum vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara og hefur mikilvægu hlutverki að gegna í almannavörnum landsins.

Systurfélög Rauða krossins í Suður-Ameríku og Alþjóða Rauði krossinn eru reiðubúinn að sendahjálparstarfsmenn og hjálpargögn á vettvang með litlum fyrirvara. Rauði kross Íslands hefur beðið sendifulltrúa sína að vera í viðbragðsstöðu vegna hamfaranna komi beiðni um aðstoð.

Rauði kross Íslands veitir fólki sem misst hefur samband við ástvini í Chile einnig aðstoð með sálrænum stuðningi og hjálp við að nýta leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins.

Enn er gífurleg þörf á neyðaraðstoð á Haítí í kjölfar jarðskjálftans sem þar varð fyrir sex vikum. Tólf hjálparstarfsmenn frá Rauða krossi Íslands hafa verið þar að störfum og enn þá eru átta sendifulltrúar á svæðinu, einkum hjúkrunarfólk. - gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×