Viðskipti innlent

Stjórnarformaður Nýherja með rúmar 2,5 milljónir í laun

Á aðalfundi Nýherja sem haldinn var fyrir helgina var samþykkt tillaga um stjórnarlaun fyrir starfsárið 2009. Þar af yrðu laun stjórnarformanns 2.550.000 kr., laun stjórnarmanna 850.000 kr. og laun varamanns 63.000 kr. fyrir hvern fund.

Í tilkynningu segir að samþykkt var að eftirtaldir skipi stjórn fyrir næsta starfsár: Benedikt Jóhannesson, Árni Vilhjálmsson og Guðmundur Jóh. Jónsson. Samþykkt var að varamaður verði Jafet S. Ólafsson.

Ný stjórn skipti með sér verkum á stjórnarfundi, sem haldinn var í framhaldi aðalfundar. Benedikt Jóhannesson gegnir stöðu stjórnarformanns. Árni Vilhjálmsson var kjörinn varaformaður.

Samþykkt var tillaga stjórnar að ekki verði greiddur arður vegna rekstrarársins 2009.

Samþykkt var eftirfarandi breyting á grein 2.1. samþykkta félagins. Í lok greinarinnar komi svohljóðandi bráðabirgðaákvæði:

Stjórn félagsins er heimilt sbr. 41. gr. hlutafélagalaga, að auka hlutafé félagsins um allt að kr. 120 millj. með sölu nýrra hluta. Falla núverandi hluthafar frá forkaupsrétti sínum til kaupa á hlutum þessum. Stjórn félagsins ákveður útboðsgengi bréfanna og sölureglur hverju sinni. Skal áskrift fara fram samkvæmt ákvæðum samþykkta félagsins og V. Kafla hlutafélagalaga. Engar hömlur skulu vera á viðskiptum með hina nýju hluti.

Hinir nýju hlutir skulu veita réttindi í félaginu frá skráningardegi hlutafjárhækkunarinnar. Heimild þessa getur stjórn Nýherja nýtt innan þriggja ára frá samþykkt hennar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×