Lífið

Keypti þjónustu rándýrra erlendra tónlistarmanna

Rapparinn fékk góða hjálp frá bandarískum kollegum við gerð nýju plötunnar. fréttablaðið/valli
Rapparinn fékk góða hjálp frá bandarískum kollegum við gerð nýju plötunnar. fréttablaðið/valli
Bandaríski rapparinn Chino XL er í gestahlutverki á fyrstu sólóplötu Authentic the Exception, sem heitir réttu nafni Magnús Þór Gylfason.

„Það kostaði hálft ár í bið og 1.500 dollara að fá hann. Það þurfti mikið af símtölum og mikið að „fiffa“ til að fá hann,“ segir Magnús, sem hoppaði hæð sína þegar hann samþykkti að taka þátt. „Þetta var stund sem ég var búinn að bíða eftir. Þegar ég fékk símanúmerið og gat verið í beinu sambandi við hann vissi ég að þetta var hann. En að bíða svona lengi var mjög erfitt.“

Chino er stórt nafn innan neðanjarðar hip hop-senunnar í Bandaríkjunum. Hann var uppgötvaður þegar hann var sextán ára af hinum virta upptökustjóra Rick Rubin. Árið 2007 samdi hann við Machete Music sem er í eigu risans Universal.

Hópur gestarappara kemur við sögu á plötu Magnúsar, Thoughts Words & Actions, og eru þeir allir bandarískir nema einn, hinn íslenski S. Cro. „Þegar ég gerði plötuna og vildi fá ákveðna listamenn vissi ég að þeir kostuðu 1.000 dollara og sumir meira. Ég vildi fá listamenn sem hafa haft áhrif á mig,“ segir Magnús, sem vann baki brotnu hjá Símanum til að láta drauminn rætast enda var platan algjörlega borguð úr eigin vasa. „Ég vann bara eins og naut til að fjármagna þetta. Ég þurfti að taka mikið af aukavöktum.“ Helmingur taktanna var fenginn frá íslenska upptökustjóranum Fonetic Simbol og hinn frá takt-smiðum frá Tyrklandi, Kólumbíu, Svíþjóð og bandaríska upptökuteyminu Da Beatminerz sem hefur unnið með rapparanum Nas.

Magnús Þór, sem er 27 ára Reykvíkingur, leggur mikla áherslu á textagerð í tónlist sinni en lögin sjálf eru undir áhrifum frá Wu-Tang Clan. Hann segist kannast við marga í íslensku hip hop-senunni en vegna enskra texta sinna hefur hann verið þar hálfgerður utangarðsmaður.

Magnús flytur til Kanada í nóvember þar sem hann ætlar í hljóðblöndunarnám. Þar ætlar hann að ná enn lengra í rappinu. „Þetta er eins árs nám og síðan ætla ég að reyna að finna vinnu úti og láta tónlistina ganga upp.“

freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.