Erlent

Fólk enn sagt á lífi í húsarústum á Haítí

Hjálparstarfsmenn róta í húsarústunum á Haítí eftir jarðskjálftann sem gekk yfir landið.ap/mynd
Hjálparstarfsmenn róta í húsarústunum á Haítí eftir jarðskjálftann sem gekk yfir landið.ap/mynd

Yfir sjötíu manns hefur verið bjargað úr húsarústunum á Haítí eftir jarðskjálftann sem gekk yfir landið á dögunum. Að sögn talsmanns Sameinuðu þjóðanna. Elisabeth Byrs, er hlutfall þeirra sem hefur verið bjargað hátt miðað við hefðbundna björgunaraðgerð á vegum samtakanna, jafnvel þótt fjöldinn sé ekki mikill miðað við alvarleika slyssins.

Að sögn Elisabeth er andinn góður á meðal hinna 1.739 björgunarstarfsmanna sem hafa leitað í rústunum undanfarna daga. Fólk er ennþá á lífi í byggingunum sem hrundu en reiknað er með því að það geti lifað í sex daga við slíkar aðstæður og sá tími rennur einmitt út í dag.

Alls eru 43 björgunarlið á svæðinu með 161 hund og hátæknibúnað sér til aðstoðar við leitina og enn fleira fólk er væntanlegt til aðstoðar.

Björgunarstarfsmenn hafa kvartað yfir því hversu erfitt hefur verið að koma hjálpargögnum í gegnum flugvöllinn í höfuðborginni Port-Au-Prince, sem er bæði lítill og illa farinn. Til að mynda var samtökunum Læknar án landamæra meinað um leyfi til að lenda á vellinum. Þess í stað þurftu þau að lenda í Dóminíska lýðveldinu og tafðist uppsetning sjúkramiðstöðvar á þeirra vegum því um einn sólahring.

Ekki er vitað hversu margir hafa farist í jarðskjálftanum. Tuttugu þúsund lík hafa þegar fundist í landinu. Heilbrigðissamtökin Pan American telja að á bilinu 50 til 100 þúsund manns hafi dáið.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×