Skoðun

Flaskan - vangaveldur um næstum því ekki neitt

Þorleifur Friðriksson skrifar

Á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu þriðjudaginn 19. október skýrði forsætisráðherra frá nýju frumvarpi sem felur í sér að skuldir gjaldþrota fólks muni fyrnast á tveimur árum, þær muni með öðrum orðum ekki elta skulduga út yfir gröf og dauða. Að þessum upplýsingum fengnum spurði fréttamaður Jóhönnu og Steingrím hvað þau vildu helst sjá í nýrri stjórnarskrá. Svar Jóhönnu var stutt, „auðlindirnar í eigu þjóðarinnar". Steingrímur vildi auk þess sjá helstu greinar umhverfisréttar færðar í stjórnarskrána.

Myndin á skjánum sýndi ábúðarfulla ráðherra með festu í svip, staðráðna að bjarga heimilunum og tryggja eign þjóðarinnar á auðlindum. Við borðið sátu einnig aðrir ráðherrar enda hefðbundinn þriðjudagsfundur ríkisstjórnarinnar. Á borðinu var hressing, kaffi og vatn. Það var þetta síðastnefnda sem vakti athygli mína, þótt ég hafi séð svo til nákvæmlega sömu sviðsetningu frá fundum þessarar sömu ríkisstjórnar á þessum sama stað. Að þessu sinni tengdi ég - orð, mann og mynd. Orðið var „umhverfisréttur", maðurinn Steingrímur J. Sigfússon og myndin var af vatninu. Ekki þó vatninu sjálfu, það var sennilega heilnæmt Gvendarbrunnavatn, kannski með kolsýru. Nei, það var sjálf flaskan úr plasti.

Það klingdi í höfði mínu og ég minntist greinar, sem ég las fyrir nokkrum mánuðum um umhverfisáhrif plastumbúða vatns- og gosdrykkja. Í Bandaríkjunum veltir plastflöskuiðnaðurinn þúsundum milljarða á ári og leggur miklar fjárhæðir í að fá fólk til þess að hætta að svala þorstanum með kranavatni. Þess í stað hefur verið búin til ímynd sem tengir vatnsflösku við hreinleika og hollustu, umhverfisvitund, æsku og hreysti.

Plast er unnið úr olíu og við vinnsluna losnar koldíoxíð í miklu magni. Enn meira losnar við að flytja flöskuna frá framleiðslustað til átöppunar og frá átöppun til neytenda. Í ljósi gróðurhúsaáhrifa hljómar þetta ekki vel í eyrum þeirra sem vilja skila okkar yndislegu Jörð í sæmilegu ástandi til næstu kynslóðar.

Samkvæmt skýrslu alþjóða náttúruverndarsamtakanna World Wide Fund for Nature (WWF) árið 2001 voru ríflega 1,5 milljón tonn af plasti notuð aldamótaárið til þess að gera ílát fyrir þá 89 milljarða lítra af vatni sem tappað var á flöskur og brúsa. Síðan er áratugur liðinn og magnið eykst dag frá degi.

Það mun vera auðvelt og ódýrt að endurnýta plastflöskur en þó fer innan við 25 prósent þessa gríðarlega magns í endurvinnslu. Hundruð þúsunda tonna enda sem jarðfylling eða „skraut" við vegabrúnir. Þótt plastið fari í jörðina er það ekki þar með úr sögunni, það tekur náttúruna einhverjar aldir að eyða einni vatnsflösku. Og enn er ótalið allt það plast sem berst til hafs. Þar flýtur það og brotnar hægt niður. Hvað verður þá um það? Það berst með straumum og eitthvað berst að ströndum eins og hver veit sem gengur á íslenska fjöru. Stærstur hluti þessa mikla magns, sem eykst stöðugt, velkist um í hafinu, ferðast með sínum hraða, þar til kemur að endastöð. Í norðanverðu Kyrrahafi er hringstraumur, tveir frekar en einn, eins konar umferðartorg hafstraumanna. Plastið, sem ekki sekkur og ekki eyðist, hefur þar ferð sína hring eftir hring og myndar smám saman fleka sem stækkar og þéttist eftir því sem tíminn líður og meira magn bætist við.

Um þessar mundir mun flekinn vera hátt í ein milljón og fjögurhundruðþúsund ferkílómetrar. (Ísland er 103 þúsund ferkílómetrar). Hvalir, selir og fuglar sem fara um þessar slóðir deyja kvalafullum dauða og fiskar veiðast orðið um öll höf með troðfulla maga af plasti. Sennilega er þarna orðið, eða að verða, eitt mesta náttúruslys allra tíma.

Það sem hér er sagt er ekki glæný sannindi og kannski flestum ljós. Það er hins vegar samhengið; umhverfisréttur, plastflöskurnar á ríkisstjórnarborðinu og Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokks umhverfissinnaðra vinstrimanna.

Það er sannarlega gott að skuldir gjaldþrota Íslendinga muni ekki fylgja þeim út yfir gröf og dauða. Verra er ef plastið utan um Gvendarbrunnavatnið á borði okkar umhverfissinnuðu ríkisstjórnar eigi eftir að eitra líf komandi kynslóða. Myndin af plastflöskunum á ríkisstjórnarborðinu 19. október og ósk Steingríms, um að sjá aðalatriði „umhverfisréttar" fest í stjórnarskrá, kölluðu fram spurninguna; hvers vegna notar fólkið ekki könnu úr gleri undir vatnið sitt? Drekka ráðherrar ekki kranavatn? Er vatnið betra þegar það hefur legið í plasti? Ekki trúi ég að þessi ríkisstjórn þurfi að kaupa sér ímynd, um æsku, hreysti og umhverfisvitund, í formi vatnsflösku.






Skoðun

Sjá meira


×