Erlent

Lyfjaskortur frestar aftökum

Fresta þarf aftökum á dauðadeildum í Bandaríkjunum vegna lyfjaskorts. Alger skortur á lyfinu sodium thiopental virðist vera að skella á í Bandaríkjunum þessa dagana en lyfið er eitt fjölmargra sem notað er þegar fangar eru teknir af lífi með eitursprautu.

35 ríki Bandaríkjanna nota þessa aftökuaðferð og í mörgum þeirra er nú gerð dauðaleit að nýjum birgðum af lifinu sem er notað til þess að svæfa fangana áður en eitrinu er dælt í þá. Eini framleiðandi lyfsins í Bandaríkjunum segir að nýjir skammtar verði ekki tilbúnir fyrr en snemma á næsta ári. Í millitíðinni eru 17 aftökur á dagskrá í níu ríkjum áður en janúar er allur.

Ástæða skortsins er sögð að hráefni í lyfið liggja ekki á lausu. Í Kalíforníu eru menn að undirbúa fyrstu aftökuna í ríkinu í rúm fjögur ár og á hún að fara fram á fimmtudagskvöld, aðeins einum degi áður en síðasti skammtur lyfsins mikilvæga rennur út. Öllum öðrum aftökum verður því líklegast frestað og hefur nokkrum þegar verið frestað í Oklahoma og Kentucky.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×