Innlent

„Þar sem einu sinni var fínt hótel…“

Lét konu sína vita af sér strax eftir skjálftann en síðan hefur ekkert til hans spurst.
Mynd/Úr einkasafni
Lét konu sína vita af sér strax eftir skjálftann en síðan hefur ekkert til hans spurst. Mynd/Úr einkasafni
„Hann lét strax vita. Áður en við vissum af skjálftanum hringdi hann í konuna sína í Bandaríkjunum,“ sagði Alfa Ragnarsdóttir, móðir Halldórs Elíasar Guðmundssonar, sem var á Haítí þegar stóri skjálftinn reið yfir.

Halldór er í guðfræðinámi í Ohio í Bandaríkjunum. Hann fór þaðan á mánudag í vikuferð með fjórtán manna hópi í námsferð að kynna sér hjálparstarf sem bandarísk kirkja í Colorado rekur meðal fátækra barna og einstæðra mæðra á Haítí. Hann lét vita af sér strax eftir skjálftann í fyrrakvöld og sagðist óhultur en að hótelið í Jacmel, um þrjátíu kílómetra suður af höfuðborginni Port-au-Prince, væri stórskemmt.

Um miðnætti í fyrrakvöld, rúmum tveimur tímum eftir skjálftann, lét Halldór Elías vita af sér á samskiptavefnum Twitter. Hann sagðist þá sitja undir tré í garði „þar sem einu sinni var fínt hótel í Jacmel“.

Jenný Brynjarsdóttir, kona Halldórs, sagðist hafa fengið tölvupóst frá skipuleggjendum ferðarinnar snemma í gær um að allir úr hópnum væru heilir á húfi. „Ástandið á hótelinu var betra en fyrst var talið og mér skilst þau hafi gist þar í nótt [í fyrrinótt],“ sagði Jenný í gærkvöld. Hún sagði þá að ekkert hefði heyrst til hópsins síðan og ekki heyrðist meira frá Halldóri áður en blaðið fór í prentun í gærkvöld.

Jenný sagði að hún ætti von á fólkinu heim til Bandaríkjanna en það gæti tekið tíma. - pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×